Erfitt fyrir dómarann að sjá

Viktor Örlygur Andrason fyrir leikinn.
Viktor Örlygur Andrason fyrir leikinn. mbl.is/Ólafur Árdal

Miðjumaðurinn Viktor Örlygur Andrason var fyrirliði Víkings í fjarveru Nikolaj Hansen er liðið mátti þola tap, 2:0, í bikarúrslitum gegn KA á Laugardalsvelli í dag.

„Þetta var erfiður leikur. Það var erfitt að finna opnanir. Við reyndum og reyndum en þetta fór einhvern veginn allt beint í hendurnar á þeim.

Mögulega vantaði smá heppni bara. Við reyndum allt hvað við gátum í öllum atriðum leiksins. Stundum er þetta svona. Þetta hefði mátt falla betur með okkur,“ sagði Viktor í samtali við mbl.is eftir leik.

Víkingur hafði unnið fjóra bikarmeistaratitla í röð fyrir leikinn í dag. „Þetta er frábær leikur í frábærri keppni. Ég var með góðan fiðring í maganum í allan dag. Því miður fór þetta svona.

Víkingar voru ósáttir við fyrra mark KA, sem hefði sennilega ekki átt að standa, þar sem Ívar Örn Jónsson virtist taka boltann með hendinni áður en Viðar Örn Kjartansson skoraði.  

„Ég sá ekki hendina en þetta var möguleg rangstaða en við vorum ekki nógu fljótir að kveikja. Það var erfitt fyrir að dómarann að sjá líka.“

Þrátt fyrir tapið í dag er nóg eftir af tímabili Víkinga. Liðið er í toppsæti Bestu deildarinnar fyrir fimm síðustu umferðirnar og eftir það tekur við deildarkeppni Sambandsdeildarinnar.

„Nú fer fókusinn á að klára deildina og svo er Evrópukeppnin fram undan líka. Það er nóg eftir af tímabilinu hjá okkur,“ sagði Viktor.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert