Unnum besta lið landsins sannfærandi

Hallgrímur Mar Steingrímsson var gríðarlega sáttur við langþráðan titil með …
Hallgrímur Mar Steingrímsson var gríðarlega sáttur við langþráðan titil með KA. mbl.is/Ólafur Árdal

 „Þetta er sturlað,“ sagði Hallgrímur Mar Steingrímsson, besti leikmaður KA undanfarin áratug eða svo, í samtali við mbl.is eftir að hann varð bikarmeistari með liðinu í fyrsta skipti. KA vann Víking, 2:0, í úrslitum á Laugardalsvelli í dag.  

„Síðan við vorum með samkeppnishæft lið í efstu deild er ég búinn að bíða eftir svona titli. Ég er búinn að vera hérna í 13, 14 eða 15 ár, ég man það ekki einu sinni. Ég get ekki verið sáttari við að loksins landa titli,“ sagði Hallgrímur sigurreifur við mbl.is eftir leik.

KA tapaði fyrir Víkingi í úrslitum fyrir ári síðan en hefndi fyrir það í dag.

„Það skiptir svo sem engu máli. Ég vildi bara klára þessa dollu. Auðvitað er gott að spila á móti besta liði landsins og vinna sannfærandi. Við áttum þennan sigur fyllilega skilið. Það var gríðarlega góð frammistaða hjá öllu liðinu.“

Dagur Ingi Valsson skoraði annað mark KA í uppbótartíma, en þá voru komnar tæplega 100 mínútur á klukkuna.

„Þá vissi maður að þetta væri komið. Hann var búinn að bæta helvíti miklu við og gera mann stressaðan á bekknum. Það er gott að vera með Stubbinn í markinu á stórum augnablikum. Hann átti markvörslu sem vann þetta.

Þegar markið kom í lokin fékk maður svo geðshræringakast því þá vissi maður að þetta væri komið,“ sagði Hallgrímur í góðu skapi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert