Ætla að enda markahæstur

Alex Freyr í bakgrunninum í kvöld.
Alex Freyr í bakgrunninum í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Alex Freyr Elísson annar tveggja markaskorara Fram í sigrinum á Fylki, 2:0, í neðri hluta Bestu deildarinnar í fótbolta, var kátur er hann ræddi við mbl.is eftir leik.

„Þetta var geggjuð frammistaða. Við vorum flottir og gerðum ljótu hlutina ótrúlega vel. Við börðumst vel og sýndum mikinn vilja, sem hefur vantað í undanförnum leikjum.

Við lofuðum sjálfum okkur að sýna góða frammistöðu bæði með og án bolta. Við sýndum aga og vilja og það skiptir máli í fótbolta ef þú vilt ná árangri,“ sagði hann.

Sigurinn var sá fyrsti eftir fimm leiki í röð án sigurs, þar af fjögur töp í röð fram að 3:3-jafnteflinu gegn FH í síðasta leik.

„Það var þungt og leiðinlegt. Við tókum það með okkur á æfingar. Það var meira tempó og gleði á síðustu æfingum og það skilaði sér inn í leikinn í dag.“

Alex skoraði markið sitt með glæsilegu skoti í stöng og inn, hægra megin við teiginn. Hann er með háleit markmið í markaskorun það sem eftir lifir tímabils. Hann er kominn með fjögur mörk á tímabilinu, tveimur minna en Guðmundur Magnússon. 

„Eins og Ólafur markvörður segir, ef ég skýt með ristinni fer hann oftast inn. Ég sagði við strákana fyrir síðasta leik að ég ætlaði að enda markahæstur hjá Fram í deildinni. Það er svolítið langsótt en ég stend við það.“

Fram á fjóra leiki eftir af deildinni og er ljóst að liðið getur ekki fallið og er lítið undir hjá Framliðinu í komandi leikjum. „Síðustu leikirnir leggjast vel í okkur. Við ætlum að sýna öllum að við eigum heima í þessum efri hluta,“ sagði Alex.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert