Ekkert svekktur eftir þessa frammistöðu

Guðni Eiríksson í leiknum í dag.
Guðni Eiríksson í leiknum í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Guðni Eiríksson þjálfari kvennaliðs FH var ánægður með leik liðsins þrátt fyrir 2:0 tap gegn Val á Hlíðarenda í dag. Spurður út í leikinn hafði Guðni þetta að segja: 

„Við vorum ekki nógu einbeittar á síðasta þriðjungi vallarins. Þær skora tvö mörk út frá mistökum hjá okkur. Þeim var ekki að takast að spila sig í gegnum okkur þannig að ég er nokkuð ánægður með frammistöðuna. Maður er ekkert svekktur eftir þessa frammistöðu. Munurinn var bara þessi mistök.“ 

Næsti leikur FH er gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli eftir tæpa viku. Ætlar FH að reyna hjálpa Valskonum með því að vinna þann leik? 

„Við erum lítið að pæla í því. Við ætlum bara að reyna gera eitthvað sambærilegt og við gerðum í dag og byggja ofan á það. Mér fannst við gefa þessu Valsliði hörku leik og þetta unga FH lið skilaði góðu dagsverki.“ 

Þið komið inn í efri hlutann í sjötta sætinu og eruð þar enn. Ég spurði fyrirliðann þinn að þessu um daginn. Er ekki erfitt að mótivera lið þegar þið hafið kannski í rauninni ekki mikið að vinna? 

„Það er kúnst að gera það, vissulega. Ég ætla ekkert að neita því að það er öðruvísi. Það er öðruvísi að mæta í leiki en við höfum alltaf sagt við okkar leikmenn að við erum núna að horfa fram í tímann og erum að nota þessa leiki til þess að fá ákveðin svör. Við erum að horfa á næsta tímabil og erum að leita svara. Í dag eru ungir leikmenn sem hafa kannski ekki spilað mikið í sumar að spila.“ 

Fara FH konur á Kópavogsvöll á laugardaginn til þess að vinna Breiðablik? 

„Að sjálfsögðu. Alveg eins og við gerðum í dag á móti Val. Við mættum hérna og ætluðum að vinna. Við börðumst í 90. mínútur og hættum aldrei. Við munum gera nákvæmlega það sama á móti Breiðablik.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert