Síðasti bensíndropinn fór í þetta

Andri Rúnar Bjarnason í slagnum í Vesturbæ í dag.
Andri Rúnar Bjarnason í slagnum í Vesturbæ í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Andri Rúnar Bjarnason framherji Vestra var nokkuð sáttur við eitt stig er liðið gerði jafntefli við KR, 2:2, í fyrstu umferð neðri hluta Bestu deildar karla í fótbolta á Meistaravöllum í dag.

Andri fékk gott færi í blálokin til að skora þriðja mark Vestra en Guy Smit í marki KR varði vel frá honum.

„Það er erfitt að segja (hvort við séum sáttir) eftir svona færi þar sem við gátum stolið þessu. En eftir að hafa lent undir sýndum við góðan karakter og seinni hálfleikurinn var frábær hjá okkur. Ég get ekki verið ósáttur,“ sagði hann við mbl.is eftir leik.

KR var með forskot í hálfleik, 1:0. Vestri skapaði sér lítið fyrir hlé, en spilaði mun betur í seinni hálfleik.

„Við töluðum um að mæta þeim. Við ætluðum ekki að koma hingað að láta valta yfir okkur. Ef við ætluðum að tapa þessum leik ætluðum við að gera það standandi í lappirnar eins og menn. Við komum mjög sterkir inn í seinni hálfleikinn.“

Andri fékk áðurnefnt færi í blálokin er hann slapp í gegn eftir glæsilegan sprett. „Það fór síðasti bensíndropinn í þetta. Ég er alveg búinn. Markvörðurinn gerði vel. Ég ætlaði að lauma honum í nær en hann gerði vel með að bíða og varði þetta vel.“

Vestri er nú einu stigi frá öruggu sæti þegar liðið á fjóra leiki eftir. Næst á dagskrá er risastór heimaleikur gegn HK. „Þetta er allt í okkar höndum og við ætlum að hugsa um næsta leik, sem er heima um næstu helgi. Við þurfum að jafna okkur vel að vera klárir þá.“

Vestri hefur nú aðeins unnið einn leik af síðustu 14 í Bestu deildinni. Þrátt fyrir það er stemningin enn þá góð í búningsklefa liðsins.

„Stemningin er góð. Þetta er mjög þéttur og góður hópur og við erum allir saman í þessu. Þegar það byrjar að blása á móti er mikilvægt að halda í liðsheildina, sem við höfum gert. Hún kemur okkur í gegnum síðustu leikina,“ sagði Andri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert