Við eigum að vera í efstu deild

Frans Elvarsson.
Frans Elvarsson. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Fyrirliði Keflavíkur, Frans Elvarsson, var mjög feginn í lok leiks þegar Keflavík hafði tryggt sér samanlagðan sigur í umspilseinvígi við ÍR. ÍR vann þó leikinn 2:3 en samanlagt fór einvígið 6:4 og Keflavík mætir Aftureldingu eða Fjölni í úrslitaleik um sæti í Bestu deild karla.

Þetta hafði Frans að segja eftir leik:

"Ég er mjög sáttur með að vera kominn í úrslitaleikinn. Þetta var ekkert sérstakur leikur hjá okkur í dag, sérstaklega fyrri hálfleikurinn, en mér fannst við vera betra liðið."

Keflavík var komið í ansi slæma stöðu, voru að tapa 0:3 og einvígið jafnt þangað til að Kári Sigfússon náði að minnka muninn fyrir Keflvíkinga á loka mínútu fyrri hálfleiks og staðan 1:3 í hálfleik. Hvað gekk á í klefanum í hálfleik?

"Við fengum hárblásarann frá þjálfurunum og rætt um að þetta væri alls ekki nógu gott og við vissum það alveg sjálfir en við þurfum að fá að heyra það líka. Þrátt fyrir að við værum 3:0 undir þá var ég aldrei smeykur. Við finnum sjálfir að við erum með mjög gott lið og eitt af tveimur bestu liðunum í þessari deild," sagði Frans.

Hversu mikilvægt er það fyrir Keflavíkurliðið að komast í úrslitaleikinn og einnig fyrir bæjarfélagið að fá svona mikilvægan leik á Laugardalsvelli?

"Það er frábært fyrir bæjarfélagið að komast í svona úrslitaleik. Ég spilaði sjálfur með Keflavík í úrslitaleik bikarsins 2014. Það var rosalega skemmtileg upplifun, bæði leikurinn sjálfur og aðdragandinn - sjá bláa hafið í stúkunni, það var geggjað. Mér finnst rosalega mikilvægt fyrir Keflavíkurliðið að komast upp því það er svo mikilvægt fyrir unga leikmenn að kynnast því að Keflavík sé alltaf með lið í efstu deild."

"Það er líka svo mikilvægt fyrir unga leikmenn að þróa sinn leik í efstu deild. Ég hef heyrt að þeim pælingum að það væri betra fyrir Keflavík að taka lengri tíma í næst efstu deild svo að ungir leikmenn fengju fleiri tækifæri svo væru þá komnir með meiri reynslu þegar við kæmumst upp en ég er ekki sammála því. Við eigum að vera í efstu deild og festa okkur betur í sessi þar" sagði Frans Elvarsson að lokum í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert