Krakkarnir komu bikarmeistaranum á óvart

Hallgrímur Mar Steingrímsson og krakkarnir í 6. og 7. bekk …
Hallgrímur Mar Steingrímsson og krakkarnir í 6. og 7. bekk Naustaskóla. Ljósmynd/Naustaskóli

Hallgrímur Mar Steingrímsson, stuðningsfulltrúi í Naustaskóla á Akureyri, fékk óvæntar og skemmtilegar viðtökur þegar hann mætti í vinnuna í morgun.

Hallgrímur varð á laugardaginn bikarmeistari í fótbolta með KA þegar liðið vann Víking, 2:0, í úrslitaleik á Laugardalsvellinum. Þetta var langþráður titill fyrir Hallgrím sem er leikja- og markahæsti leikmaðurinn í sögu KA í efstu deild en hann hafði aldrei orðið Íslands- eða bikarmeistari á löngum ferli.

Krakkarnir í 6. og 7. bekk mættu mörg hver í KA-búningum í skólann, höfðu undirbúið það með kennurum og foreldrum án þess að Hallgrímur vissi af. Bikarinn var til staðar og bikarmeistaranum fagnað vel og innilega.

Hallgrímur var síðan myndaður með hópnum og myndin er birt með góðfúslegu leyfi skólastjóra Naustaskóla.

Hallgrímur Mar Steingrímsson lyftir bikarnum á Laugardalsvellinum á laugardaginn.
Hallgrímur Mar Steingrímsson lyftir bikarnum á Laugardalsvellinum á laugardaginn. mbl.is/Ólafur Árdal
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert