Landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir telur að vináttulandsleikurinn við Kanada í knattspyrnu á Spáni á eftir muni gefa liðinu mikið.
Ísland og Kanada mætast í Murcia klukkan 18 í kvöld. Þetta er fyrri vináttulandsleikur Íslands í þessum landsleikjaglugga en íslenska liðið mætir síðan Danmörku á sama stað næsta þriðjudag.
„Mér líst mjög vel á þetta. Kanada er með hörkulið sem spilaði virkilega vel á Ólympíuleikunum. Þetta verður hörkuleikur fyrir okkur.
Þær eru mjög sterkar og fljótar og fara hratt upp völlinn. Þetta verður hörkuverkefni fyrir okkur,“ sagði Glódís Perla í viðtali við KSÍ.
Ísland er að mæta tveimur gæðaliðum í þessum glugga. Kanada er í sjötta sæti heimslistans en Danmörk er í tólfta, sæti ofar en Ísland.
Glódís telur það vera ótrúlega mikilvægt að mæta svona sterkum liðum til að halda áfram að þróa leik íslenska landsliðsins.
„Þetta hjálpar okkur að halda áfram að bæta okkar leik. Þetta eru lið í hæstaklassa sem við viljum bera okkur saman við.
Þá þurfum við að halda áfram að bæta okkar leik og nýta öll þessi verkefni í að verða betri.“
Glódís rýndi síðan í mótherjann:
„Þær vilja sækja hratt og við þurfum að hafa stjórn á því. Einnig þurfum við að passa upp á boltann þegar við fáum hann og verjast vel.
Þær eru góðar einn á einn og við verðum að verjast því og nýta svæðin sem þær munu gefa okkur.“
Ísland er í gríðarlega sterkum riðli í A-deild Þjóðadeildar Evrópu með Frakklandi, Noregi og Sviss.
„Það er ekki hægt að fá léttan riðil í A-deild. Þetta eru skemmtilega ólíkir og verðugir mótherjar. Okkar markmið er að vera í topp tveimur, það hefur ekkert breyst,“ bætti Glódís Perla við.