Ísland spilar heimaleikinn á Spáni

Íslenska landsliðið mun leika heimaleik sinn á Spáni í mars.
Íslenska landsliðið mun leika heimaleik sinn á Spáni í mars. Ljósmynd/Alex Nicodim

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mun spila heimaleik sinn gegn Kósovó í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildar Evrópu í borginni Murcia á Spáni í mars á næsta ári. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá KSÍ en enginn völlur á Íslandi stóðst kröfur UEFA og þurfti knattspyrnusambandið því að leita erlendis. 

Leikvangurinn í Murcia tekur ríflega 30 þúsund áhorfendur og var tekinn í notkun árið 2006 með vináttulandsleik á milli Spánar og Argentínu. 

Um er að ræða heimavöll Real Murcia sem er í þriðju efstu deild Spánar um þessar mundir. 

Íslenska kvennalandsliðið leikur tvo landsleiki, í kvöld gegn Kanada og á þriðjudaginn gegn Danmörku, í sömu borg, þó á öðrum velli, Pinatar Arena.

Murcia er í um 100 kílómetra fjarlægð frá alþjóðaflugvellinum í Alicante þar sem margir Íslendingar fara um enda dvelja margir þeirra á þessu svæði.

Fyrri leikur Íslands og Kósovó fer fram í Pristína 20. mars og leikurinn í Murcia síðan 23. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka