Búin að bíða lengi eftir þessu

Elín Rósa Magnúsdóttir ræðir við fréttamenn í gær.
Elín Rósa Magnúsdóttir ræðir við fréttamenn í gær. Ljósmynd/Jon Forberg

Leikstjórnandinn Elín Rósa Magnúsdóttir tekur þátt á sínu öðru stórmóti í röð með íslenska landsliðinu í handknattleik. Ísland mætir Hollandi í fyrsta leik í F-riðli á EM 2024 í Innsbruck í Austurríki í dag.

„Þetta er ótrúlega spennandi og skemmtilegt. Maður er búinn að bíða eftir þessu svo lengi og loksins er að koma að þessu. Maður getur næstum því ekki trúað því að þetta sé að skella á,“ sagði Elín Rósa í samtali við mbl.is.

Hún kvaðst ánægð með undirbúning liðsins fyrir Evrópumótið þar sem liðið vann Pólland tvisvar í síðasta mánuði og tapaði með einu marki í tvígang fyrir Sviss í síðustu viku.

„Mér finnst hann hafa gengið mjög vel. Við tókum náttúrulega þessa vináttuleiki, sem var mjög gott. Við hefðum viljað fá aðeins betri úrslit en fínt að ná að spila sig saman og æfingarnar hafa líka gengið mjög vel. Ég held að við séum bara mjög tilbúnar í þetta.“

Með betri þjóðum í heiminum

Elín Rósa er spennt fyrir leiknum gegn sterku liði Hollands í dag.

„Leikurinn leggst mjög vel í okkur. Þær eru auðvitað ótrúlega sterkar og með betri þjóðum í heiminum í dag. Þær eru mjög þéttar og góðar íþróttakonur, vel samstilltar og spila vel saman.

Þær eru með alls konar leikmenn, góða breidd og allt sem gott lið er með. Þetta verður mjög erfitt verkefni sem við fáum en á sama tíma förum við í alla leiki til þess að vinna þá og spila okkar leik. Það er allt hægt í handbolta,“ sagði hún.

Elín Rósa fer ekki ofan af því að stuðningur Íslendinga í Ólympíuhöllinni í Innsbruck sé mikilvægur.

„Það er náttúrlega bara geggjað að sjá bláa stuðningsfólkið okkar. Það er slatti af fólki að koma, þó maður viti kannski ekki nákvæmlega hversu margir þá skiptir það ekki öllu máli. Það er ótrúlega gott að hafa stuðning í stúkunni og sjá Íslendingana þar,“ sagði hún að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka