Glæsileg frammistaða en naumt tap fyrir Hollandi

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik mátti sætta sig við naumt tap fyrir afar sterku liði Hollands, 27:25, í fyrstu umferð F-riðils EM 2024 í Ólympíuhöllinni í Innsbruck í Austurríki í kvöld.

Enginn skrekkur var í íslenska liðinu í upphafi leiks eins og hætti til að vera raunin í upphafi leikja á HM 2023. Þvert á móti nutu leikmenn sín og nýttu fyrstu sóknirnar mjög vel.

Ísland komst nokkrum sinnum tveimur mörkum yfir, 3:1, 4:2 og 5:3, og jók svo forystuna í þrjú mörk, 8:5, þegar tæplega 13 mínútur voru liðnar af fyrri hálfleiknum.

Elín Klara Þorkelsdóttir fagnar marki í leiknum í dag..
Elín Klara Þorkelsdóttir fagnar marki í leiknum í dag.. Ljósmynd/Jon Forberg


Þá tók Henrik Signell, þjálfari Hollands leikhlé, enda leist Svíanum ekki á blikuna. Í kjölfar leikhlésins batnaði leikur Hollendinga töluvert og ekki leið á löngu þar til staðan var orðin jöfn, 9:9. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks var allt í járnum.

Sóknarleikur íslenska liðsins var ekki jafn markviss með mörgum töpuðum boltum auk þess sem Yara ten Holte í marki Hollands datt í gang. Sömu sögu var að segja af Elínu Jónu Þorsteinsdóttur í íslenska markinu sem hóf nánast að loka markinu þegar leið á fyrri hálfleikinn.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir í leiknum í dag.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir í leiknum í dag. Ljósmynd/Jon Forberg


Holland komst yfir í fyrsta sinn í leiknum í stöðunni 11:10 en staðan í hálfleik var 12:12 eftir hörku frammistöðu Íslands.

Elín Jóna var með níu varin skot í fyrri hálfleik og ten Holte átta.

Hollendingar ögn sterkari í síðari hálfleik

Í síðari hálfleik var staðan jöfn til að byrja með en eftir að Ísland jafnaði metin í 14:14 kom erfiður kafli hjá liðinu og Holland skoraði fjögur mörk í röð. Munurinn skyndilega orðinn fjögur mörk í stöðunni 18:14 og þá tók Arnar Pétursson landsliðsþjálfari leikhlé.

Elín Klara Þorkelsdóttir í leiknum í dag.
Elín Klara Þorkelsdóttir í leiknum í dag. Ljósmynd/Jon Forberg


Það virkaði sem vítamínsprauta fyrir Ísland sem fór sér að engu óðslega, minnkaði forystu Hollands fljótlega í tvö mörk. Eftir að Holland komst í 21:18 skoraði Ísland svo þrjú mörk í röð og jafnaði metin þannig í 21:21.

Íslenska liðið náði einnig að jafna metin í 22:22. Holland náði aftur undirtökunum og komst nokkrum sinnum tveimur mörkum yfir. Ísland reyndi hvað það gat til þess að jafna metin á ný en hafði hins vegar ekki erindi sem erfiði.

Steinunn Björnsdóttir í leiknum í dag.
Steinunn Björnsdóttir í leiknum í dag. Ljósmynd/Jon Forberg


Eftir að Holland komst fjórum mörkum yfir, 27:23, þegar tæp ein og hálf mínúta var eftir var verkefnið orðið erfitt. Ísland gafst hins vegar ekki upp, skoraði síðustu tvö mörk leiksins og niðurstaðan tveggja marka tap eftir afar flotta frammistöðu íslenska liðsins.

Elín Jóna var í leikslok valin maður leiksins en hún varði 15 skot og var með 37 prósent markvörslu.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst í leiknum með átta mörk.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Ísland 0:0 Kanada opna
45. mín. Hálfleikur Markalaust í hálfleik. Kanada verið aðeins sterkari aðilinn sem af er.
Fram 3:3 FH opna
7. mín. Jóhannes Berg Andrason (FH) skoraði mark Arnór varði hann inn spurning hvort hann hefði átt að gera betur.

Leiklýsing

Holland 27:25 Ísland opna loka
60. mín. Holland tekur leikhlé Mínúta eftir en Hollendingar vilja ræða saman.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka