„Það er kannski smá spennufall en við stóðum okkur heilt yfir ótrúlega vel,“ sagði Elín Klara Þorkelsdóttir, leikstjórnandi Íslands, eftir 27:25-tap fyrir Hollandi í F-riðli EM 2024 í Innsbruck í Austurríki í kvöld.
„Elín Jóna var gjörsamlega frábær í markinu og Elín Rósa var það líka. Svo var stúkan geggjuð og þetta var ótrúlega skemmtileg upplifun. Það var ótrúlega svekkjandi að hafa ekki náð að vinna þennan leik,“ sagði Elín Klara í samtali við mbl.is eftir leik.
Stutt var á milli í leiknum og Ísland hefði hæglega getað unnið sigur. Spurð hvað hafi vantað upp á til þess að tryggja sér sigur sagði hún:
„Þetta var náttúrlega frekar jafnt, við spiluðum góða vörn í fyrri hálfleik. Kannski voru aðeins of margir tapaðir boltar í seinni hálfleik.
Þær keyrðu svolítið á okkur og við misstum þetta niður í fjögur mörk en komum samt til baka, sem er ótrúlega sterkt. Það var kannski það að við misstum þetta svolítið mikið niður og vorum að elta aðeins of lengi. Þær keyra náttúrlega mikið.“
Elín Klara sagði frammistöðuna til marks um þær miklu framfarir sem Ísland hefur tekið undanfarin ár.
„Jú, klárlega. Við vorum að spila vel sóknarlega og varnarlega, frábær liðsheild. Þetta var ótrúlega gaman og góður hópur. Þetta er klárlega mikil framför og bara það að vera svekktar eftir þennan leik segir sitt,“ sagði leikstjórnandinn knái að lokum.
Elín Klara skoraði fjögur mörk, gaf fjórar stoðsendingar og fiskaði fjögur vítaköst í sínum fyrsta leik með A-landsliðinu á stórmóti.