„Hef aldrei upplifað annað eins“

Pep Guardiola er áhyggjufullur þessa dagana.
Pep Guardiola er áhyggjufullur þessa dagana. AFP/Patricia de melo Moreira

Manchester City tapaði illa á heimavell fyrir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag, 0:4. Eftir leikinn var Pep Guardiola áhyggjufullur í viðtali við fjölmiðla.

Þetta var fimmta tap City í röð í öllum keppnum og er það eitthvað sem Guardiola hefur aldrei upplifað á sínum þjálfaraferli.

„Við erum ótrúlega viðkvæmir varnarlega. Eins og venjulega byrjuðum við vel en gátum ekki skorað, eftir það fáum við á okkur mark og svo annað mark sem er tilfinningalega erfitt fyrir okkur á þessum tímapunkti,“ sagði Guardiola eftir leikinn.

„Ég hef aldrei upplifað annað eins á mínum átta árum hér. Við þurfum að fara í gegnum þetta og brjóta þetta mynstur með því að vinna næsta leik. Núna sjáum við hlutina á einn hátt en kannski munum við sjá þá öðruvísi á næstu vikum,“ sagði Guardiola.

Hann var þá spurður hvort að leikmenn hans væru í erfiðleikum með að takast á við ástandið og hvort þetta hefði áhrif á sjálfstraust þeirra.

„Auðvitað. Við erum ánægðir þegar við vinnum og áhyggjufullir þegar við gerum það ekki, það er eðlilegt. Það væri vandamál ef þeir eða ég værum ekki áhyggjufullir.“

„Við erum ekki vanir því að vera í svona stöðu en svona er lífið. Stundum gerist þetta og við þurfum að takast á við það,“ sagði Guardiola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka