Tottenham valtaði yfir Manchester City, 3:0, í 12. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í Manchester í kvöld. Þetta er fimmta tap City í röð og í fyrsta skipti í sögu Pep Guardiola sem hann tapar fimm leikjum í röð sem stjóri.
Úrslitin þýða að Manchester City situr áfram í öðru sæti með 23 stig, fimm stigum á eftir Liverpool á toppnum. Tottenham er í sjötta sæti með 19 stig.
Manchester City byrjaði viðureignina af krafti. Erling Haaland fékk tvö ágætis færi til að skora á fyrstu tíu mínútunum.
Tottenham komst yfir á 13. mínútu eftir fallega sókn. Dejan Kulusevski átti stórkostlega fyrirgjöf frá hægri á James Maddison sem kom á ferðinni og skoraði með viðstöðulausu skoti frá markteig. Mark gegn gangi leiksins.
Aðeins sjö mínútum síðar var Maddison aftur á ferðinni. Josko Gvardiol gaf boltann klaufalega frá sér, beint á Maddison sem sendi boltann á Son Heung-Min. Son dró til sín varnarmenn og lagði boltann svo skemmtilega á Maddison í hlaupinu sem kláraði snyrtilega yfir Ederson.
Staðan í hálfleik 2:0, Tottenham í vil.
Þriðja mark Tottenham kom á 52. mínútu eftir laglega skyndisókn. Kulusevski fann Solanke á fjærstönginni sem lagði boltann út á Pedro Porro sem hamraði knettinum í netið.
Manchester City sótti án afláts en tókst ekki að koma boltanum í netið þrátt fyrir mörg góð tækifæri.
Á þriðju mínútu uppbótartímans gerði varamaðurinn Brennan Johnson endanlega út um leikinn. Timo Werner kom með sendingu fyrir markið á Johnson sem skoraði í autt markið. Lokaniðurstaða 4: 0-sigur Tottenham.