Sutil keppir fyrir Spyker

Þýski ökuþórinn Adrian Sutil, meistari í japönsku formúlu-3 í ár, hefur verið ráðinn til að keppa fyrir Spyker-liðiði í formúlu-1 á næsta ári.

Í upphafi þótti Sutil eiga alla möguleika á því að verða tilraunaökuþór Spyker á næsta ári, en hann hafði betur í samkeppni um keppnissætið við Tiago Monteiro sem keppti fyrir liðið í ár.

Sutil hafði mikil áhrif á stjórnendur og tæknimenn liðsins er hann sinnti akstri á föstudögum nokkurra mótshelga í ár. Hefur hann gert samning til langtíma við Spyker.

Sutil var liðsfélagi Lewis Hamilton, verðandi keppnisþórs McLaren, í evrópumótaröðinni í formúlu-3 árið 2005.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert