Brynjar skoraði og Viðar gaf stoðsendingu - góður leikur Loga

Brynjar Ingi Bjarnason skoraði fimmta mark HamKam.
Brynjar Ingi Bjarnason skoraði fimmta mark HamKam. Ljósmynd/Robert Spasovski

Brynjar Ingi Bjarnason skoraði og Viðar Ari Jónsson lagði upp mark í 5:0-sigri HamKam á Lillestrøm í norsku úrvalsdeildinni í dag.  

Viðar Ari gaf stoðsendingu á Vegard Kongsro í fyrsta marki HamKam. Á 25. mínútu leiksins þurfti Viðar að fara af velli vegna meiðsla.  

Brynjar Ingi kom inn á af varamannabekknum á 70. mínútu í stöðunni 4:0 og skoraði síðan fimmta mark HamKam.  Góður dagur hjá Brynjari sem er KA-maður en félagar hans á Akureyri urðu bikarmeistarar í dag.

Sigurinn þýðir að HamKam er í áttunda sæti með 28 stig.  

Logi hafði betur gegn Sveini

Íslenski landsliðsmaðurinn Logi Tómasson spilaði allan leikinn með Strømsgodset í 2:1-sigri liðsins á Sarpsborg í norsku úrvalsdeildinni í dag.  Logi fékk hæstu einkunnir hjá a.mk. tveimur netmiðlum fyrir frammistöðu sína en hann bjargaði m.a. á marklínu undir lokin.

Sveinn Aron Guðjohnsen var í byrjunarliðinu hjá Sarpsborg og spilaði fyrstu 74 mínútur leiksins.  

Úrslitin þýða að Strømsgodset er í níunda sæti með 27 stig en Sarpsborg er í 10. sæti með 26 stig.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert