Brynjólfur í bann og stuðningsmenn handteknir

Brynjólfur í leik með Groningen.
Brynjólfur í leik með Groningen. Ljósmynd/Groningen

Hollenska knattspyrnufélagið Groningen segir frá í frétt á heimasíðu sinni í dag að gærdagurinn hafi verið mikil vonbrigði fyrir félagið.

Groningen mátti þola tap gegn Heerenveen á útivelli, 2:1, í hollensku úrvalsdeildinni. Þeir Marvin Peersman og Brynjólfur Willumsson fengu báðir rautt spjald í leiknum.

Brynjólfur fékk sitt á 82. mínútu, eftir að hann kom inn á sem varamaður á 60. mínútu. Hann fékk fyrst um sinn gult spjald en því var breytt í rautt eftir skoðun í VAR.

Þeir hafa nú báðir verið úrskurðaðir í tveggja leikja bann, með þriðja leikinn skilorðsbundinn. Fái Brynjólfur annað bann á leiktíðinni verður það því lengra.

Til að bæta gráu ofan á svart voru tveir stuðningsmenn félagsins handteknir eftir leik fyrir að slást við stuðningsmann Heerenveen. Eiga þeir yfir höfði sér bann frá leikjum Groningen í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert