Gríðarleg spenna í norska boltanum

Logi Tómasson var í tapliði Strömsgodset í dag.
Logi Tómasson var í tapliði Strömsgodset í dag. mbl.is/Karítas

Mikil spenna er fyrir lokaumferðina í norska boltanum sem fer fram um næstu helgi. Næstsíðasta umferðin var spiluð í dag og er nýtt lið í toppsæti deildarinnar eftir leiki dagsins.

Topplið deildarinnar fyrir umferðina í dag var Brann en liðið átti afar erfiðan útileik gegn Molde sem endaði með sigri Molde, 2:1, þar sem Ola Brynhildsen skoraði bæði mörk heimamanna áður en Felix Horn Myhre minnkaði muninn fyrir Brann. Eftir leikinn er Molde í fjórða sæti deildarinnar með 52 stig í harðri Evrópubaráttu. Brann er hinsvegar dottið niður í annað sæti eftir tapið.

Bodo/Glimt er hinsvegar komið í toppsæti deildarinnar eftir sterkan útisigur á Odd, 2:0. Patrick Berg og Jens Petter Hauge skoruðu mörk Bodo/Glimt í dag. Bodo/Glimt er stigi á undan Brann á toppi deildarinnar en Odd er í neðsta sæti og er fallið í næstefstu deild.

Misjafnt gengi Íslendingaliðanna

Viking vann afar sannfærandi sigur á Haugasund í dag, 5:1. Oscar Krusnell kom Haugasund yfir áður en Sondre Klingen Langas jafnaði fyrir heimamenn. Eftir að Egil Selvik hafði verið vikið af velli þá var eftirleikurinn auðveldur fyrir Viking sem skoraði fjögur mörk í síðari hálfleik. Nicholas D´Agostino skoraði tvívegis og Lars-Jörgen Salvesen og Kristoffer Lökberg gerðu sitt hvort markið. Anton Logi Lúðvíksson sat allan tímann á varmannabekk Haugasund í dag. Eftir leikinn er Viking í 3. sæti með 56 stig en á ekki möguleika á meistaratitlinum vegna slæmrar markatölu í baráttunni við Bodo/Glimt. Haugasund er hinsvegar í 14. sæti sem er umspilssæti um að halda sér í deildinni.

Fredrikstad vann góðan sigur á HamKam, 1:0, þar sem Henrik Kjelsrud Johansen skoraði sigurmark liðsins á 79. mínútu. Júlíus Magnússon lék allan leikinn á miðju Fredrikstad að venju og Brynjar Ingi Bjarnason var allan leikinn í miðverði HamKam. Þá kom Viðar Ari Jónsson inn á í bakvarðarstöðuna hjá HamKam á 61. mínútu. Eftir leikinn er Fredrikstad í 6. sæti en HamKam í því 12.

Rosenborg gerði 1:1 jafntefli við Sarpsborg þar sem Sveinn Aron Guðjohnsen var ónotaður varamaður hjá Sarpsborg. Rosenborg er í fimmta sæti deildarinnar en Sarpsborg er í 11. sætinu.

Stefán Ingi Sigurðarson spilaði fyrstu 76 mínúturnar með liði sínu Sandefjord í 3:0 útisigri á Lilleström. Eftir leikinn er Sandefjord í 9. sæti deildarinnar en með tapinu þá féll Lilleström úr deild þeirra bestu.

Hilmir Rafn Mikaelsson skoraði fyrsta mark Kristiansund á 10. mínútu leiksins þegar liðið vann sterkan útisigur á KFUM Oslo, 2:1. Hilmir spilaði fyrstu 81 mínútu leiksins. Eftir leikinn er Kristiansund í 10. sæti en KFUM Oslo er í því áttunda.

Loks spilaði Logi Tómasson fyrstu 80 mínúturnar með Strömsgodset í 2:0 tapi á útivelli gegn Tromsö. Stromsgödset er í 7. sæti deildarinnar en Tromsö er í 13. sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka