Mika Häkkinen ræður arftaka sínum hjá McLaren, Kimi Räikkönen, að ganga á vit annarra liða, heldur vera um kyrrt hjá McLaren. Häkkinen segir að liðið muni geta uppfyllt það takmark landa síns að verða heimsmeistari ökuþóra.
Häkkinen varð tvisvar heimsmeistari ökuþóra á McLarenbíl - 1998 og 1999 - og hann segist vilja ráðleggja Räikkönen um heilt og hvetja hann til að hundsa tilboð frá öðrum liðum og halda lengur út hjá McLaren.
Räikkönen hefur verið orðaður við Ferrari sem hugsanlegur arftaki Michaels Schumacher. Tvisvar hefur hann orðið í öðru sæti í stigakeppni ökuþóra sem liðsmaður McLaren.
Vangaveltur um för hans frá McLaren urðu æ sterkari eftir að liðið réði Fernando Alonso hjá Renault til að keppa fyrir sig frá og með 2007.
Häkkinen segir að sér hafi lærst það á ferli sínum í formúlunni að þolinmæði myndi borga sig á endanum og McLaren gæti lagt honum til bíl til sigurs.
„Þegar ég var tilraunaþór 1993 sagði [liðsstjórinn] Ron Dennis við mig: „Mika, þú munnt keppa í ár,“ sagði Häkkinen við blaðamenn í vikunni þar sem hann var við bílprófanir vegna DTM-mótanna.
„Já, en ég er tilraunaþór,“ svaraði ég. „Hann efndi loforðið og ég sagði við sjálfan mig: „Vá, ég get reitt mig á þennan mann.
Árið 1994 hélt ég áfram kappakstri og Ron sagði: „Okkur mun takast það saman, við vinnum heimsmeistaratitil saman. Það tekur tíma en okkur mun takast það.
Og okkur tókst það. Því held ég að það svari spurningunni nokkuð. Ég ákvað að vera um kyrrt og gerði rétt með því.
Á ferli mínum fékk ég fullt af tilboðum frá hinum og þessum liðum, auðvitað, en ég gerði rétt. Ég helgaði mig McLaren og var fullviss um að liðið myndi geta unnið, og það gerðum við,“ segir Häkkinen sem hætti keppni í Formúlu-1 2001. „Það er mál Kimi að ákveða hvað hann gerir. Ég sé samt ekki af hverju liðið ætti ekki að geta unnið aftur, það tekur bara svolítin tíma. Það hefur verið nærri því margsinni og mér sýnist geta bílsins í fyrstu tveimur mótunum hafa verið í lagi,“ segir heimsmeistarinn fyrrverandi.