Hlaupagarpurinn Oscar Pistorius ætti að ná sér að fullu eftir bátsslys

Oscar Pistorius
Oscar Pistorius Reuters

Hinn 22 ára gamli hlaupagarpur frá Suður-Afríku, Oscar Pistorius, ætti að ná sér að fullu eftir að hafa gengist undir aðgerð á höfði og andliti, eftir að hann lenti í slysi í heimalandi sínu.

Pistorius sem er einn sigursælasti hlauparinn í flokki fatlaðra var í bátsferð með vini sínum nálægt Jóhannesarborg á laugardag á ánni Vaal þegar hann lenti í slysi en sögum ber ekki saman um hvernig slysið orsakaðist nákvæmlega. Hann gekkst svo undir aðgerð á sunnudag á spítala í Jóhannesarborg.

„Heilinn í honum starfar eðlilega eftir slysið,“ sagði Anchen Laubcher, læknirinn sem meðhöndlaði Pistorius eftir slysið en hann skaddaðist mest á höfði.

Pistorius sem notast við gervifætur frá Össuri og hefur nokkrum sinnum sótt Ísland heim vegna þess, vann þrenn gullverðlaun á ólympíumóti fatlaðra í Peking og fæturnir frá Össuri hafa hjálpað honum mikið. Munaði minnstu að hann væri meðal keppenda á Ólympíuleikunum sjálfum meðal full frískra í Peking á síðasta ári.

Ástand Oscars Pistoriusar var stöðugt eftir slysið og eftir að aðgerðin var framkvæmd. Í yfirlýsingu frá umboðsmanni hans, Peet van Zyl í gær sagði: „Oscar verður útskrifaður af spítalanum fljótlega til þess að fara heim til sín að jafna sig og ná bata. Hann varð ekki fyrir neinum skaða á neinum útlimum og braut ekki eða marði nein rifbein. Oscar verður kominn á hlaupabrautina fyrr en síðar. Hann vonar að hann geti tekið þátt í heimsmeistarakeppni fatlaðra sem fer fram í Manchester í Englandi í maí.“

thorkell@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert