Montreal tókst hið ómögulega

Jaroslav Halak markvörður Montreal sem kemur frá Slóvakíu lokaði hreinlega …
Jaroslav Halak markvörður Montreal sem kemur frá Slóvakíu lokaði hreinlega markinu í þremur síðustu leikjunum. Reuters

Montreal Canadiens skráði nafn sitt í sögubækurnar í bandarísku NHL íshokkídeildinni í gær með 2:1 sigri á útivelli gegn Washington Capitals í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. 

Montreal var í áttunda sæti eftir deildarkeppnina en Washington var með besta árangurinn í því efsta. Washington náði yfirhöndinni í einvíginu og komst í 3:1 en Montreal vann næstu þrjá leiki og tryggði sér sæti í undanúrslitum. Aldrei áður hefur lið í áttunda sæti unnið þrjá leiki í röð í stöðunni 3:1 í úrslitakeppni. Úrslitin í Austurdeild NHL deildarinnar hafa komið á óvart því þrjú efstu liðin í deildarkeppninni eru úr leik eftir fyrstu umferð.

Jaroslav Halak markvörður Montreal sem kemur frá Slóvakíu lokaði hreinlega markinu í þremur síðustu leikjunum. Hann varði 37 af alls 38 skotum í fimmta leiknum, hann gerði enn betur í sjötta leiknum og varði 53 af alls 53 skotum Washington. Í oddaleiknum varði Halak 41 af alls 42 skotum Washington. Hann var með 97,7 % markvörslu í síðustu leikjunum.

Montreal mætir ríkjandi meistaraliði Pittsburgh Penguins í næstu umferð.

Philadelphia Flyers leikur gegn Boston Bruins í hinni undanúrslitaviðureigninni í Austurdeild.

 Í Vesturdeild eigast við í undanúrslitum San Jose Sharks og Detroit Red Wings annarsvegar og Chicago Blackhawks og Vancouver Canucks hinsvegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert