„Hópurinn er enn sterkari núna“

Á myndinni eru, í efri röð frá vinstri; Ásmundur Ísak …
Á myndinni eru, í efri röð frá vinstri; Ásmundur Ísak Jónsson, Elías Snorrason, Davíð Freyr Guðjónsson, Birkir Indriðason, Kristján Helgi Carrasco, Aðalheiður Rósa Harðardóttir, Ragnar Eyþórsson, Arnór Ingi Sigurðsson, Guðni Pétursson og Andri Sveinsson. Í neðri röð frá vinstri; Heiðar Benediktsson, Kristín Magnúsdóttir, Hekla Helgadóttir, Svana Katla Þorsteinsdóttir, Telma Rut Frímannsdóttir, Kristján Ó. Davíðsson, Elías Guðni Guðnason, Jóhannes Gauti Óttarsson og Jóhanna Brynjarsdóttir. Á myndina vantar landsliðsmanninn Arnar Nikulásson. Ljósmynd/Karatesambandið

Stór hópur Íslendinga verður á ferð í Stokkhólmi um helgina þegar þar fer fram alþjóðlegt mót í báðum greinum karate; kumite og kata. Sautján manna landsliðshópur Íslands keppir á mótinu en íslensku keppendurnir eru alls 35 talsins því stór hópur fer einnig á mótið á vegum síns karatefélags.

Íslendingar hafa átt góðu gengi að fagna á mótinu síðustu ár og unnu til sautján verðlauna fyrir ári síðan, þar af þrennra gullverðlauna. Norðurlandameistarinn Jóhannes Gauti Óttarsson vann þá í kumite í -70 kg flokki 14-15 ára og Arnór Ingi Sigurðsson í kumite í -75 kg flokki fullorðinna. Báðir hljóta því að teljast líklegir til afreka í ár líkt og fleiri en Helgi Jóhannesson varaformaður Karatesambands Íslands segir íslenska hópinn enn öflugri í ár en í fyrra. Hann kveðst vonast eftir árangri í samræmi við það en á mótið í Stokkhólmi mæta margir helstu landsliðsmenn af Norðurlöndunum til leiks.

„Við höfum náð góðum árangri og auðvitað er það stefnan að hann verði svipaður eða betri í ár. Hópurinn er enn sterkari núna, einfaldlega vegna þess að þetta er að megninu til sami hópur sem hefur fengið markvissari þjálfun síðasta árið, svo að við erum bjartsýn á góðan árangur,“ sagði Helgi við Morgunblaðið í gær.

Á mótinu í Stokkhólmi mæta til leiks keppendur í öllum aldursflokkum og er á laugardeginum keppt í aldursflokkum þeirra sem eru 15 ára eða yngri. Yngstu íslensku keppendurnir eru 13 ára. Á sunnudeginum keppa svo þeir sem eldri eru.

„Meirihlutinn af okkar keppendum er á aldrinum 15-17 ára og við erum að byggja upp rosalega öflugan hóp. Það er mikil gróska þarna og þessir keppendur eru að mynda sterkan kjarna í landsliðinu,“ sagði Helgi. Landsliðshópurinn keppir einmitt á Norðurlandamótinu í Tampere í Finnlandi 16.-17. apríl og er mótið í Stokkhólmi liður í undirbúningi fyrir það. Helgi segir að mótið gefi góða hugmynd um það sem koma skal í apríl.

„Við höfum farið á þessi mót í Svíþjóð nokkuð reglulega og þau eru missterk eftir því til hvaða flokks er horft til. Það koma á þetta mót margir landsliðsmenn frá hinum Norðurlöndunum svo að við fáum þarna forsmekkinn af því sem koma skal á Norðurlandamótinu í apríl. Styrkleiki mótsins er nokkuð góður en við eigum mikið erindi á það eins og reynslan sýnir.“ sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert