Norðmaðurinn Gjert Ingebrigtsen hefur aftur verið ákærður fyrir ofbeldi í garð heimsfræga hlauparans Jakobs Ingebrigtsen.
Gjert var fyrr á árinu einnig ákærður fyrir heimilisofbeldi í garð yngra systkinis Jakobs.
Jakob er einn þekktasti íþróttamaður Noregs en bræður hans Henrik og Filip eru einnig hlauparar og hafa unnið til verðlauna á stórmótum.
Norðmenn urðu margir hverjir fyrir áfalli í október á síðasta ári þegar bræðurnir ásökuðu föður sinn um ofbeldi.
„Við ólumst upp hjá mjög árásargjörnum og drottnandi föður sem beitti líkamlegu ofbeldi og hótunum í uppeldinu,“ skrifuðu þá bræðurnir í samvinnu við dagblaðið VG í fyrra.
Jakob er yngsti bróðirinn en einnig sá sem hefur náð lengst. Hann er tvöfaldur ólympíu- og heimsmeistari ásamt því að vera heimsmethafi í 1.500, 2.000 og 3.000 metra hlaupi.
Í umfjöllun Verdens Gang um málið kemur fram að réttarhöldin muni taka nokkrar vikur og að Gjert gæti verið dæmdur í allt að sex ára fangelsi. Hann neitar sök, líkt og hann hefur ávallt gert.