Tiger tekur þátt í Masters

Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods mun snúa aftur á golfvöllinn í apríl og taka þátt í Masters-mótinu á Augusta golfvellinum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Woods í dag. Mastersmótið er eitt af fjórum stærstu golfmótum hvers árs. 

„Mastersmótið er fyrsta stórmótið sem ég vann og ég ber mikla virðingu fyrir þessu móti. Eftir að hafa verið fjarri íþróttinni lengi tel ég að ég sé reiðubúinn til að hefja keppni á ný á Augusta," segir Woods á vef sínum.

Hann lýsti því yfir í desember að hann ætlaði að taka sér hlé frá keppni vegna erfiðleika í einkalífinu en í ljós kom að hann hafði átt ástarævintýri með mörgum konum þótt hann sé giftur og eigi tvö ung börn.  

„Ég hef gengist undir meðferð í nærri tvo mánuði og ég held meðferðinni áfram," segir Woods. „Þótt ég hefji keppni á ný er enn mikið verk óunnið til að koma einkalífi mínu á réttan kjöl." 

Hneykslismál úr óvæntri átt

Hrun Tigers Woods af stalli sínum hófst 27. nóvember í fyrra þegar fréttir bárust af umferðaróhappi utan við hús kylfingsins og konu hans, Elin Nordegreen, nálægt Orlando á Flórída. Daginn eftir sagðist lögregla ekki hafa getað rætt við þau hjón um óhappið. 

29. nóvember sendi Woods frá sér yfirlýsingu þar sem hann axlar ábyrgð á óhappinu og gagnrýnir fréttaflutning af einkalífi sínu. „Ég er mannlegur og ekki fullkominn," skrifaði hann á vef sinn. „Það gengur rangur og meiðandi orðrómur um mig og fjölskyldu mína."

30. nóvember hættir Woods við að keppa í móti, sem hann stóð sjálfur fyrir.

1. desember sendi lögreglan Woods 164 dala umferðarsekt fyrir óvarlegan akstur en segir að engar kærur hafi borist um heimilisofbeldi.  

2. desember sagðist kokkteilþernan Jaimee Grubbs hafa átt í 2½ árs ástarsambandi við Woods, sem sagði sama dag í yfirlýsingu: „Ég hef brugðist fjölskyldu minni og ég harma mjög þau hliðarspor."  

Dagna 4.-11. desember stigu nokkrar konur fram og sögðust hafa átt vingott við Woods, þar á meðal klámmyndaleikkona og þerna. Að minnsta kosti 10. konur voru orðaðar við hann. 

8. desember var Barbro Holmberg, tengdamóðir Woods, flutt á sjúkrahús frá heimili Woods en er útskrifuð sama dag.

11. desember segist þernan Jamie Jungers vera miður sín eftir að hafa átt í ástarsambandi við Woods. Kylfingurinn segir á heimasíðu sinni að hann muni taka sér ótímabundið hlé frá keppni og biðst afsökunar á ótryggð.

13. desember lýsti ráðgjafarfyrirtækið Accenture því yfir að það hefði sagt upp auglýsingasamningi við Woods. Aðrir auglýsendur, þar á meðal Nike og Tag Heuer, halda tryggð við kylfinginn. 31. desember lýsti fjarskiptafélagið AT&T því yfir að samningur þess við Woods væri runninn út.

19. janúar hermdu fréttir að Woods hefði leitað sér lækninga við kynlífsfíkn á meðferðarstofnun í Hattuiesburg í Mississippi. 

Woods birtist opinberlega 13. febrúar í fyrsta skipti eftir að málið kom upp og baðst afsökunar á sjálfselsku sinni.

16. mars, í dag, tilkynnti Woods að hann muni keppa á Mastersmótinu á Augusta golfvellinum 8.-11. apríl.

Tiger Woods.
Tiger Woods. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert