U19 ára landslið karla í handbolta vann öruggan sigur gegn Hollendingum á Alþjóðamóti í Þýskalandi í dag. Þetta er annar sigur liðsins í dag en liðið hafði betur gegn B-liði Þýskalands, 25:20, fyrr í dag.
Holland byrjaði viðureignina betur og leiddu fyrstu 20 mínúturnar og komust mest fimm mörkum yfir. Íslensku strákarnir náðu þó að rétta úr kútnum og jafna metin og var staðan í hálfleik 11:11.
Íslenska liðið var með mikla yfirburði í síðari hálfleik og vann að lokum öruggan sigur, 29:19.
Í liði Íslands var Baldur Fritz Bjarnason markahæstur með sex mörk. Garðar Ingi Sindrason var næst markahæstur með fimm mörk.
Sigurjón Atlason varði 10 skot og Jens Sigurðarson varði tvö skot.
Ísland mun leika til undanúrslita á morgun klukkan 10.50 að íslenskum tíma. Andstæðingurinn verður annaðhvort Sviss eða Serbía en þau lið mætast síðar í dag.