Ítalinn flytur á Álftanes

David Okeke í leik með Haukum.
David Okeke í leik með Haukum. mbl.is/Árni Sæberg

Ítalski körfuknattleiksmaðurinn David Okeke er genginn til liðs við úrvalsdeildarlið Álftaness en hann hefur leikið hér á landi undanfarin þrjú ár.

Okeke kemur  til Álftnesinga frá Haukum en hann er 2,05 metrar á hæð og leikur sem miðherji. Síðasta vetur skoraði hann 17 stig og tók 10 fráköst að meðaltali í leik fyrir Hafnarfjarðarliðið.

Þar á undan lék hann með Keflvíkingum í tvö ár en tveir liðsfélagar hans á Álftanesi hafa áður spilað með Okeke, Hörður Axel Vilhjálmsson með Keflavík og Daði Lár Jónsson með Haukum.

Okeke er 26 ára gamall og lék með 19 ára landsliði Ítalíu sem fékk silfurverðlaun á heimsmeistaramótinu árið 2017. Hann varð meistari í Georgíu með Rustavi vorið 2021, áður en hann kom til Keflavíkur, og varð bikarmeistari með Auxilium Torino árið 2018 en hann lék með liðinu í tvö tímabil í ítölsku A-deildinni. Eftir það þurfti hann að taka sér nærri því þriggja ára frí frá körfubolta af heilsufarsástæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert