Goðsögnin um hlutabréf

Litið er á hlutabréf sem besta langtímafjárfestingarkostinn. Már Wolfgang Mixa segist efast um að ávöxtun hlutabréfa næstu tuttugu árin verði jafngóð og sl. tuttugu ár og telur nokkuð víst að þeir sem leggja allan sinn langtímasparnað í hlutabréf eigi flestir eftir að verða fyrir vonbrigðum.

Undanfarin misseri hefur mikil áróðursherferð virst vera í gangi hér á landi um að hlutabréf séu bestu fjárfestingarkostirnir þegar litið sé til lengri tíma. Hefur t.d. verið auglýst að langtímafjárfestar eigi að vera þátttakendur í hlutabréfalestinni (þýtt úr ensku The Stock Market Train), þ.e. að fjárfesta smám saman blint í dreifðum söfnum af hlutabréfum. Þetta var sjálfsagt ágætt þegar hlutabréf voru nánast ókunn almennum fjárfestum sem fjárfestingarkostir. Í dag er staðan hins vegar orðin sú að flestir, leikmenn jafnt sem lærðir, telja að hlutabréf séu eini rétti kosturinn þegar um langtímafjárfestingar er að ræða. Þegar talað er um langtímafjárfestingar þarf hins vegar í það fyrsta að skilgreina hversu lengi þær raunverulega eiga að vera. Flestir sem fjárfesta til lengri tíma byrja á því af krafti upp úr fimmtugu til þess að geta lagt til hliðar fyrir elliárin. Sagan í Bandaríkjunum sýnir að fram að þeim tíma komi reglulega upp tilfelli sem leiða til þess að stór hluti þess sem fjárfest er til langs tíma er selt aftur fyrr en upphaflega var ætlað. Því má segja að langtímafjárfestingar séu að jafnaði hjá einstaklingum vart lengri en tuttugu ár, líklega styttri.

Ég leyfi mér að efast um að ávöxtun hlutabréfa næstu tuttugu árin verði jafngóð og sl. tuttugu ár og tel nokkuð víst að þeir sem leggja allan sinn langtímasparnað í hlutabréf eigi flestir eftir að verða fyrir vonbrigðum, einfaldlega vegna þess að búið er að keyra upp væntingar fram úr hófi. Það eru jafnvel góðar líkur á að ávöxtun hlutabréfa verði slakari á því tímabili en ávöxtun ríkisskuldabréfa.

Þetta kann að vera nær óhugsandi staðhæfing í dag. Erfitt er við fyrstu sýn að ímynda sér annað, sérstaklega ef litið er til þeirrar ávöxtunar sem Dow Jones-hlutabréfavísitalan hefur veitt undanfarin ár: Dow Jones Industrial Average hlutabréfavísitalan var þann 30. september árið 2000 10.651 stig en 30. september, 1981 850 stig. Meðaltalsávöxtun á ári á þessu tímabili var rúmlega 14% auk arðgreiðslna. Þetta eru tölur sem svíkja fáa. Dæmið verður aftur á móti dekkra þegar litið er til þeirrar ávöxtunar sem Dow Jones-hlutabréfavísitalan gaf árin þar á undan: Dow Jones Industrial Average hlutabréfavísitalan var 30. september, 1981 850 stig en 30. september, 1965 var hún 931 stig. Burtséð frá arðgreiðslum hefði fjárfestir sem keypti hlutabréf í samræmi við Dow Jones-hlutabréfavísitöluna á svipuðum tíma og Bítlarnir gáfu út Help!-hljómplötuna verið með tæplega 10% neikvæða nafnávöxtun tæpu ári eftir lát John Lennon. Rökrétt væri að álykta að Bandaríkin hafi átt í miklum efnahagslegum erfiðleikum á þessu tímabili, jafnvel kreppu. Þjóðarframleiðsla Bandaríkjanna fjórfaldaðist hins vegar næstum því á þessu tímabili. Reyndar var hagvöxtur á þessu lítt gjöfula tímabili hlutabréfa meiri heldur en hagvöxturinn á því skeiði sem Dow Jones-hlutabréfavísitalan tólffaldaðist. Inn á milli hafði olíukreppan vissulega neikvæð áhrif árin 1974 og 1975 en mikið hagvaxtarskeið kom þó í kjölfarið. Hver getur skýringin þá verið?

Ávöxtunarkröfur

Árið 1965 fóru vextir í Bandaríkjunum að hækka. Ávöxtunarkrafa 10 ára ríkisbréfa var rúmlega 4% á árinu en fór þá hægt og bítandi upp á við. Hún náði hámarki haustið 1981 eins og fyrsta línuritið (65-81) sýnir og hafði þá næstum því fjórfaldast á tímabilinu. Háir vextir höfðu neikvæð áhrif á gengi hlutabréfa með tvennum hætti. Sú ávöxtunarkrafa sem gerð var til fyrirtækja í samanburði við ríkisbréf var svo há að gengi fyrirtækja hækkaði ekki þrátt fyrir aukinn hagnað. Auk þess hafði það neikvæð áhrif á rekstrarafkomuna hversu hár og stöðugt vaxandi vaxtakostnaður var. Síðan fóru vextir að lækka það haust. Vaxtakostnaður fyrirtækja minnkaði sem jók hagnað þeirra. Það sem skiptir þó meira máli er að ávöxtunarkrafan til hlutabréfa snarlækkaði og olli því að markaðsverð þeirra hækkaði svo um munar.

Nú er ávöxtunarkrafa ríkisbréfa í Bandaríkjunum hins vegar aftur orðin það lág að hækkun hlutabréfa, tilkomin vegna enn frekari lækkunar vaxta og þar með ávöxtunarkröfu, er óðum að hverfa. Leiðin upp á við fyrir vexti er orðin lengri en niður á við, enda er hún á svipuðum slóðum og árið 1965. Óraunhæft er að halda að hlutabréf veiti jafngóða ávöxtun og undanfarna tvo áratugi þegar vextir ríkisbréfa eru orðnir svo lágir. Sagan frá 1965 til 1981 sýnir að hlutabréf ein og sér sem langtímafjárfesting geta verið ávísun á mikil vonbrigði þegar upp er staðið. Rökréttara væri að áætla að hagvöxtur og hin aukna framleiðni, aðallega tengd veraldarvefnum, verði helsti drifkraftur aukins hagnaðar og þ.a.l. virði hlutabréfa fyrirtækja. Samkvæmt því má áætla að ávöxtun hlutabréfa verði á bilinu 7-8% haldist ávöxtunarkrafa ríkisbréfa stöðug. Óskynsamlegt væri að veðja öllu á það.

Bestu langtímafjárfestingarnar?

Ein þumalputtaregla við skiptingu hlutabréfa og skuldabréfa (hægt er að bæta öðrum fjárfestingarkostum við, t.d. gulli og fasteignum) þegar litið er til langtímafjárfestinga er að draga aldur fjárfestis frá tölunni 100 og fá þannig hlutfall hlutabréfa. 30 ára fjárfestir hefði þannig 70% í hlutabréfum en sambærilegt hlutfall fyrir 60 ára fjárfesti væri aðeins um 40%. Þessi skoðun hefur verið gagnrýnd á þeim rökum að hlutabréf væru alltaf bestu langtímafjárfestingarnar. Umfjöllunin hér að ofan ætti hins vegar að styrkja þá skoðun að varasamt er að áætla að langtímafjárfestingar verði bundnar eins lengi og í upphafi er lagt upp með og að hlutabréf ein sér séu eini rétti kosturinn. Skipting hlutabréfa og skuldabréfa í safni fjárfesta er oft tengd tíðarandanum og oft er það persónubundið hvaða hlutfall er skynsamlegt. Langtímafjárfestar ættu hins vegar að gera sér grein fyrir því að hlutabréf hafa stundum, jafnvel til lengri tíma, veitt afleita ávöxtun. Það er goðsögn að þau ein og sér séu besta langtímafjárfestingin og því óvarlegt að hafa öll eggin þar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK