14,3 milljarða hagnaður Landsbanka

Afkoma Landsbankans  var jákvæð um  rúma 14,3 milljarða króna eftir skatta á síðasta ári sem var fyrsta heila starfsár bankans.  Arðsemi eigin fjár var 10% sem er nokkuð lægra en sá fjármagnskostnaður sem ríkið ber af hlutafjárframlagi sínu til bankans. Á sama tíma mældist ársverðbólga 8,63%. 

Ásmundur Stefánsson, bankastjóri, segir í tilkynningu að gríðarlegar breytingar hafi orðið hjá bankanum frá bankahruninu í október 2008. Miklar breytingar hafi orðið á stjórnendahópi og flestir verkferlar verið endurskoðaðir. Á sama tíma áttu sér stað margslungnar samningaviðræður við Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. um yfirtöku og mat á eignum.

„Stærsta verkefni bankans í nánustu framtíð er að endurvinna traust viðskiptavina. Það verður ekki gert á einu ári, en mikilvæg skref í þá átt hafa verið stigin með skuldaaðlögun fyrir fyrirtæki og einstaklinga og styrkingu innviða bankans," segir Ásmundur.

Fram kemur í tilkynningunni, að vaxtamunur af meðalstöðu heildareigna var 2,1% á árinu. Eigið fé bankans í árslok var 157 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall (CAD –hlutfall) var 15% í árslok 2009.

Heildareignir bankans voru 1061 milljarðar króna við árslok 2009. Innlán viðskiptavina námu 453 milljörðum króna og útlán til viðskiptavina námu 667 milljörðum króna í árslok 2009. Um fjórðungur heildarútlána er til sjávarútvegsfyrirtækja og ríflega fjórðungur til einstaklinga.

Rekstrarkostnaður bankans af reglulegri starfsemi nam 15,8 milljörðum króna. Laun og launatengd gjöld voru 8,5 milljarðar króna. Í árslok 2009 voru 1161 stöðugildi í Landsbankanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK