Verðbólga ekki minni síðan 2007

Verðlækkun á grænmeti vegur þungt í lækkun vísitölu neysluverðs
Verðlækkun á grænmeti vegur þungt í lækkun vísitölu neysluverðs mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Verðbólga mæld á tólf mánaða tímabili hefur ekki verið minni síðan í nóvember 2007 er hún var 5,2%. Lækkun á bensíni og olíu ásamt lækkun á mat- og drykkjarvörum hafa mest áhrif til lækkunar á verðlagi í júní en hækkanir á fötum og skóm og húsnæði vega á móti, samkvæmt upplýsingum frá ASÍ.

Verðlag lækkaði um 0,33% í júní og verðbólga á ársgrundvelli er nú 5,7% samkvæmt nýrri mælingu Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs sem birt var í morgun.

Verð á bensíni og olíu lækkar um 5,9% frá fyrra mánuði og hefur 0,34% áhrif til lækkunar á vísitölunni. Sömuleiðis lækkar verð á mat – og drykkjarvörum um 1,5% frá því í maí sem hefur 0,23% áhrif til lækkunar á vísitölunni en þar vegur lækkun á grænmeti um 16% frá fyrra mánuði þyngst. Þá sjást merki um sterkara gengi krónunnar í lækkun á innfluttum mat- og drykkjarvörum sem lækka um 1,5% milli mánaða en verð á öðrum innfluttum vörum lækkar hins vegar ekki.

Til hækkunar á vísitölunni nú kemur hækkun á húsnæði en kostnaður við eigin húsnæði hækkar um 0,5% frá fyrra mánuði (0,06% vísitöluáhrif).

Verðlag á fötum og skóm heldur einnig áfram að hækka og hefur hækkar um 0,7% frá því í maí (0,05% vísitöluáhrif). Af öðrum liðum má nefna að verð á pakkaferðum hækkar um 4,4% frá fyrra mánuði (0,05% vísitöluáhrif) og verð á gistingu um 14% (0,05% vísitöluáhrif), samkvæmt upplýsingum frá ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK