Fyrirtækin velja sjálfbærni á viðskiptalegum forsendum

Björn Brynjólfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Björn Brynjólfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Morgunblaðið/Karítas Guðjónsdóttir

Sífellt fleiri fyrirtæki leggja áherslu á sjálfbærni og ekki er óalgengt í dag að innan fyrirtækja starfi deildir sem sérhæfi sig á því sviði. Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs segir í samtali við ViðskiptaMoggann að fyrirtækin velji sjálfbærni á viðskiptalegum forsendum. 

„Íslenskt atvinnulíf er í fremstu röð þegar kemur að sjálfbærni og loftslagsmálum. Viðskiptaráð fagnar því vegna þess að það er gert á grundvelli frjáls framtaks, það er að segja fyrirtækin kjósa sjálf að gera það vegna þess að þau telja hag sínum betur borgið þar sem við erum. Það sem við höfum meiri áhyggjur af er þegar ríkisvaldið stígur inn og ætlar að neyða þessa þróun í gegn í stað þess að hún eigi sér stað á forsendum einstaklinga og fyrirtækja. Við sjáum dæmi um það í nýrri loftslagsáætlun stjórnvalda þar sem eru margar aðgerðir sem fela í sér takmarkanir, skattabönn eða aukna reglubyrði án þess að mikill ávinningur sé af aðgerðunum í formi minni losunar,“ segir Björn.

Vilja horfa til nýrrar nálgunar í Evrópu

Spurður hvaða áherslur stjórnvöld ættu að setja á oddinn í loftslagsmálum segir Björn nærtækast að líta til nýrrar nálgunar Evrópusambandsins í loftslagsmálum.

Viðskiptaráð sé fylgjandi stefnu stjórnvalda um að fylgja öðrum Evrópuríkjum þegar kemur að samdráttarmarkmiðum, enda sé það forsenda þess að við höldum fullum aðgangi að innri markaðnum.

„Það er mikilvægt að kostnaður aðgerða sé lágmarkaður og dregið úr íþyngjandi inngripum eins og kostur er. Í nýrri skýrslu Marios Draghis sem unnin var fyrir Evrópusambandið kemur fram að Evrópa hafi dregist aftur úr Bandaríkjunum þegar kemur að lífskjörum,“ segir Björn og bendir á að lífskjör í Bandaríkjunum hafi batnað mikið á síðustu 15 árum á meðan Evrópa hefur meira og minna staðið í stað.

„Í ljósi skýrslunnar hefur framkvæmdastjórn ESB boðað breytta nálgun í loftslagsmálum. Loftslagsaðgerðir skuli útfærðar með þeim hætti að neikvæð efnahagsleg áhrif séu lágmörkuð og að samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja sé nú í forgrunni. Það er gert svo fólk sjái sér áfram hag í því að reka og stofna fyrirtæki í Evrópu í stað þess að gera það annars staðar,“ segir Björn.

Stjórnvöld vanrækt að meta kostnað

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Að mati ráðsins mun hún að óbreyttu hafa neikvæð áhrif á þróun lífskjara á Íslandi.

Stjórnvöld hafi vanrækt að meta efnahagslegan kostnað og loftslagsávinning af þeim tillögum sem þar er að finna, en þær eru 150 talsins. Björn segir að Viðskiptaráð hvetji íslensk stjórnvöld til að endurskoða loftslagsaðgerðirnar með þetta í huga.

„Samkeppnishæfni er grundvöllur blómlegs atvinnulífs. Án þess er ekki hægt að fjárfesta í endurnýjanlegri orku, hagkvæmari innviðum eða grænni tækni. Loftslagsaðgerðir stjórnvalda ættu að innihalda mat á efnahagslegum áhrifum svo hægt sé að bera saman kostnað og ávinning hverrar aðgerðar. Við hvetjum ráðuneytið til að bæta slíku mati við allar aðgerðir áður en lengra er haldið,“ segir Björn.

Björn Brynjólfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, er í ítarlegu viðtali við ViðskiptaMoggann í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK