Icelandair tekur flugið með Southwest

Icelandair og bandaríska flugfélagið Southwest hafa undirritað viljayfirlýsingu um að …
Icelandair og bandaríska flugfélagið Southwest hafa undirritað viljayfirlýsingu um að hefja samstarf á árinu 2025.

Gengi Icelandair hefur hækkað um tæp 9% í dag, þegar þetta er skrifað, en bandaríska flugfélagið Southwest tilkynnti í dag um að Icelandair yrði þeirra fyrsti samstarfsaðili.

Southwest er stærst bandarískra lággjaldaflugfélaga.

Í tilkynningu kemur fram að Southwest hyggist útvíkka leiðakerfi sitt með samstarfi við önnur flugfélög víða um heim. Samstarfið hefst á næsta ári í gegnum alþjóðaflugvöllinn Baltimore BWI Marshall.

Fram kemur að samstarfið verði útvíkkað á fleiri flugvelli eftir því sem líður á næsta ár, auk þess sem áætlað er að hið minnsta einn nýr samstarfsaðili bætist við á næsta ári.

Viljayfirlýsing um samstarf

Í tilkynningu frá Icelandair kemur fram að flugfélögin hafi undirritað viljayfirlýsingu um að hefja samstarf á árinu 2025. Samstarfið muni gefa viðskiptavinum tækifæri á þægilegum tengingum á milli leiðakerfa flugfélaganna tveggja.

Aukin áhersla á samstarf við flugfélög hafi útvíkkað markaðstækifæri Icelandair og styrki enn frekar öflugt leiðakerfi félagsins, sem samanstendur af 34 áfangastöðum í Evrópu og 17 í Norður-Ameríku.

Skýr stefna um samstarf

„Við erum mjög spennt fyrir því að Southwest bætist í öflugan hóp samstarfsflugfélaga okkar og erum stolt af því að þau hafi valið okkar sem sitt fyrsta samstarfsflugfélag. Samstarfið mun opna spennandi ferðamöguleika fyrir okkar viðskiptavini og okkar öfluga leiðakerfi í Evrópu mun sömuleiðis opnast fyrir viðskiptavinum Southwest.

Við höfum skýra stefnu um að hefja samstarf við flugfélög sem þekkt eru fyrir að veita frábæra þjónustu og öflugar tengingar, og það er Southwest svo sannarlega. Við bjóðum Southwest velkomin í hóp samstarfsaðila og hlökkum til að vinna saman að því að bjóða viðskiptavinum okkar upp á þægilega og ánægjulega ferðaupplifun,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra Icelandair í tilkynningunni.

Þakklát fyrir traustið

„Icelandair verður fyrsta samstarfsflugfélagið okkar en félagið deilir með okkur áherslum á hlýjar móttökur og góða upplifun. Með samstarfinu munum við framlengja leiðakerfi okkar enn frekar, en nú bjóðum við upp á flug til um 120 áfangastaða í Norður-Ameríku.

Við erum þakklát fyrir traustið og samstarfsviljann sem nú hefur tengt leiðakerfi okkar frábæru flugfélaga með það að markmiði að bæta þjónustuna við viðskiptavini beggja vegna Atlantshafsins,“ er haft eftir Ryan Green framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Southwest.

Fréttin hefur verið uppfærð með tilkynningu Icelandair.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK