Druslugangan fer fram á laugardaginn í fjórða skiptið og hefst hún klukkan 14 við Hallgrímskirkju. Gangan fer niður Skólavörðustíg, Bankastræti og mun enda á Austurvelli þar sem við taka fundahöld og tónleikar.
„Þetta bara skotgengur,“ segir Hjalti Vigfússon, einn af skipuleggjendum göngunnar, aðspurður hvernig undirbúningur hennar gengur. „Við tókum upp myndband við frumsamið lag göngunnar í ár um helgina en að því koma nokkrir meðlimir Reykjavíkurdætra, Ásdís María og Halldór Eldjárn. Lagið heitir D.R.U.S.L.A. og er komið í spilun á útvarpsstöðvum. Myndbandið verður síðan frumsýnt á morgun.“
Aðspurður segir Hjalti að það sé vissulega mikil vinna að skipuleggja viðburð eins og Druslugönguna. Einnig er langt ferli að baki þar sem líta þarf í mörg horn. „Þetta er vissulega búið að vera mikil vinna en það er fullt af fólki búið að hjálpa okkur.“
Samkvæmt texta á facebooksíðu göngunnar leggur hún höfuðáherslu á að færa ábyrgð kynferðisglæpa frá þolendum yfir á gerendur. „Druslugangan er orðin að föstum punkti í íslensku samfélagi þar sem samfélagið rís upp gegn kynferðisofbeldi og stendur upp fyrir þolendum - gegn gerendum. Druslugangan leggur höfuðáherslu á að færa ábyrgð kynferðisglæpa frá þolendum yfir á gerendur. Það er alltof oft þannig að einblínt er á klæðnað, hegðun eða fas þolenda sem afsökun fyrir kynferðisglæpum. Það er ekki til nein afsökun,“ kemur m.a. fram á síðunni.
Þrátt fyrir að höfuðáherslan sé alltaf söm var ákveðið mjög snemma að vera ekki með eina ákveðna áherslu í göngunni heldur margar. „Við ákváðum snemma að það yrði enginn rauður þráður heldur myndi fólk mæti í gönguna á sínum forsendum,“ segir Hjalti. „Hins vegar hefur áherslan aðeins þróast að réttarkerfinu og hvernig það tekur á móti þolendum kynferðisofbeldis.“