Heimasķša |
Dagbók leišangursmanna ÍSLENSKU fjallgöngumennirnir Björn Ólafsson, Einar Stefánsson og Hallgrímur Magnússon komu í grunnbúðir á Everestfjalli snemma í gærmorgun að íslenskum tíma eftir nokkurra klukkutíma göngu úr þriðju búðum yfir Khumbuísfallið. Fjallgöngumennirnir náðu tindi Everest á miðvikudagsmorgun en hafa síðan fikrað sig niður á við. Björn sagði þá alla vera við góða heilsu og líta þokkalega út. Við höfum verið lengi á leiðinni niður. Við hresstumst þegar við komum í þriðju búðir og vorum svo heldur sneggri á leiðinni niður í dag og komumst áfallalaust niður af ísfallinu í síðasta skiptið," sagði Björn. Hann sagði að ísfallið hefði verið gerbreytt frá því þeir fóru þar upp síðast og það hefði verið ótrúleg sjón. 22 á tindinn í gær Þegar rætt var við Björn í gær biðu Íslendingarnir frétta af öðrum fjallgöngumönnum sem fóru á tind Everest í gær. Við brutum ísinn ef svo má segja. Ég vissi um 34 leiðangra sem voru tilbúnir til uppgöngu og um leið og fréttist að við hefðum komist upp ætluðu allir að reyna og flestir voru að stíla inn á þennan dag," sagði Björn. Gott veður var á fjallinu í gær og var það jafnvel talinn síðasti mögulegi uppgöngudagurinn á þessu ári. Samkvæmt fréttaskeyti Reutersfréttastofunnar náðu 22 fjallgöngumenn tindi Everest í gær sömu leið og Íslendingarnir fóru tveimur dögum áður. Er þetta næstmesti fjöldi sem þangað hefur komist á einum degi en flestir fóru upp 10. maí 1993 eða 40 talsins. Einn þeirra sem kleif fjallið í gær var Tashi Tenzing, sonarsonur Sherpans Norgay Tenzing sem komst fyrstur á Everesttind ásamt Edmund Hillary árið 1953. Tenzing, sem er 32 ára gamall, býr í Ástralíu. Afi hans lést árið 1986. Sonur Hillarys, Peter, komst á Everesttind árið 1990. Í gær náðu einnig fjallgöngumenn frá Bandaríkjunum, Finnlandi, Mexíkó, Kanada og Malaysíu, á tindinn ásamt fylgdarmönnum. Malaysíska sjónvarpið sýndi beint frá því þegar fjallgöngumennirnir reistu fána Malaysíu á tindinum. Reutersfréttastofan sagði einnig í sérstakri frétt frá afreki Íslendinganna þriggja. Í gær höfðu alls 35 fjallgöngumenn náð á Everesttind á þessu ári Neapalmegin. Á afmæli í dag Talsvert langan tíma tók fyrir íslensku fjallgöngumennina að laga sig að þunna loftinu í hlíðum Everst. Björn sagði að ekki þyrfti sérstakan aðlögunartíma þegar komið væri niður.Við verðum hér í grunnbúðum í 23 daga og röltum svo niður í 2.000 metra hæð. Hins vegar er það svo, þegar líkaminn er vanur þunna loftinu, að þegar maður kemur úr svona ferðum þarf miklu minni svefn fyrstu vikurnar á eftir; þá duga 45 tímar," sagði Björn. Í dag á Hallgrímur Magnússon afmæli og verður 31 árs. Sjálfsagt höldum við eitthvað upp á það og kannski bakar strákurinn og gerir okkur einhvern dagamun," sagði Björn. ÞESSI sjón blasti við Íslendingunum þremur þegar þeir stigu efst á Everestfjall og þeir festu á mynd stórfenglegt útsýnið yfir Himalayafjallgarðinn. Viðtal Leifs Haukssonar á Rás 2 við Björn Ólafsson á toppi Everest á þriðjudagsmorgun (RealAudio). Þeir sem ekki hafa RealAudio hugbúnað geta sótt hann með því að smella hér Efst Grunnbúðum, 22. maí Það er alveg ljóst á þeim talstöðvarsamskiptum sem við höfum átt við okkar menn að það er löng og flókin saga ósögð af þeim 19 klst sem það tók að ná hæsta tindi jarðar og að ná tjöldum aftur. Þar kemur við sögu stormur, stíflaðar súrefnisgrímur, tómir súrefniskútar, ótrúlega erfitt göngufæri, tafir og bið í 8700 m hæð, erfið og löng niðurferð og margt fleira. Þessi saga verður að bíða betri tíma. Strákarnir fara ofan úr Suðurskarði í dag og alla leið niður í þriðju búðir þar sem kokkarnir taka á móti þeim með heitu tei. Þeir hvílast þar í dag en koma svo niður í gegnum ísfallið í síðasta sinn hingað í grunnbúðir á morgun. Þeir félagar Chris Brown og Watts sem dvöldu með strákunum í Suðurskarði og reyndu með þeim þann 19. en treystu sér ekki daginn eftir, komu niður í grunnbúðir í dag. Þeir sögðu svolítið aðra sögu af fyrstu toppatilrauninni en strákarnir. Þeir hafa aldrei lent í svona slæmu veðri og hefur Chris Watts nær 20 ára reynslu af klifri í Himalayafjöllum. Chris Brown hefur aldrei verið eins hræddur á ævinni og átökin að koma niður aftur drógu úr þeim mátt. Þeir segja svo að veðrið þegar lagt var upp í annað sinn hafi verið ákaflega hvasst og þeim hafi ekki komið til hugar að leggja af stað þó þeir hefðu haft krafta til. Það er ljóst að strákarnir eru veðurvanari ofan af Íslandi en þeir og finnst minna til veðurhæðarinnar koma. Chrisarnir tveir segjast hafa gert sitt besta en það hafi bara ekki verið nóg. Þeir eru þó svekktir yfir því að þeir telja annan hópinn okkar fá betri aðstæður og að þeir hefðu haft góðan möguleika með þeim. Kraftar þeirra eru hins vegar á þrotum og þeir munu ekki reyna aftur. Annar hópurinn okkar með þeim Jon Tinker leiðangursstjóra, Mark, Eric og Chris Brown ásamt Lakpageilo Sherpa, DarTensi Sherpa og Danuru Sherpa fóru upp í Suðurskarð í dag og freista þess að reyna við tindinn í nótt. Það er besta veðurspá í margar vikur fyrir morgundaginn og þeir njóta þess að búið er að ryðja slóðina og leggja línur á erfiðustu staðina. Þeim fylgja allar okkar bestu óskir. Þeim fylgir reyndar einnig talstöðvabúnaður strákanna því hann reyndist óaðfinnanlega sem er annað en segja má um aðrar talstöðvar. Við þurfum því að standa vaktina í nótt aftur til að þeir hafi samband við umheiminn. Við höfum af því fregnir að a.m.k. Malaysíumenn og Nova leiðangurinn bandaríski muni reyna í nótt. Það var öllum hér mjög létt að sálfræðilegi múrinn var brotinn með árangri okkar manna í gær og það er allt annað að heyra í mönnum hér nú og mun meiri bjartsýni á góðan árangur en áður. Bestu kveðjur úr grunnbúðum. Efst Grunnbúðum, 21. maí Strákarnir yfirgáfu toppinn kl. 14.00 eftir klukkutíma dvöl og héldu niður. Þeir lentu í ýmsum vandræðum með súrefni og Hallgrímur var súrefnislaus hluta af leiðinni. Samt sem áður gekk niðurferðin áfallalaust og þeir voru í gilinu ofan Suðurskarðs kl.17:00. Þar var súrefni og kom það þreyttum mönnum vel. Þeir komu svo ekki í fimmtu búðir fyrr en milli sjö og átta og svefnpokarnir voru velkomin sjón eftir 19 tíma ferðalag á þak heimsins. Efst Grunnbúðum, 20. maí Kl. 0.00, (18.15 að ísl. tíma) Núna, klukkan fimmtán mínútur fyrir miðnætti að staðartíma lögðu þeir Björn, Einar og Hallgrímur öðru sinni á brattann og settu stefnuna á tindinn. Það hefur verið hvasst í Suðurskarði í allan dag og það var ekki fyrr en eftir kl. 22 sem ákvörðun var tekin að halda af stað. Það er enn bálhvasst og brunagaddur en strákarnir láta það ekki á sig fá. Þannig er veðrið, þannig er spáin næstu daga og annað er ekki að fá. Það hefur fækkað í hópnum, Chris Brown og Chris Watts urðu eftir í Suðurskarði og treystu sér ekki upp aftur í annað sinn á einum sólarhring. Nick Kekos er því eini vestræni klifrarinn með strákunum en hann er atvinnufjallamaður og mjög reyndur. Að auki eru eins og í gær þeir Babu, Dawa og Pende Sherpar með þeim. Enn stöndum við Jón Þór vaktina hér í aðalbúðum og komum fréttum af þeim félögum eins fljótt og auðið er. Nú ríður á að hafa hugann með strákunum og kveða burt þennan vind svo hann verði ekki til vandræða. Kveðjur úr grunnbúðum Hörður og Jón Þór E.s. Talandi um að hafa hugann með strákunum okkar. Það eina sem þeir félagar höfðu áhuga á að fá að vita í dag þar sem þeir biðu í rokinu uppi í Suðurskarði voru fréttir af gengi strákanna okkar í Japan. Kl. 2.15 Núna uppúr klukkan 2 að okkar tíma fengum við kall frá Suðausturhrygg Everest. Strákarnir eru komnir uppúr gilinu frá Suðurskarði og eru komnir nokkurn spöl uppeftir hryggnum. Hæðin er um 8250m sem þýðir að nú er sett nýtt íslenskt hæðarmet í hverju skrefi. Hraðinn á þeim er góður eða yfir 100 hæðarmetrar á klukkustund. Vindur var mikill í fyrstu, svo mikill að varla var stætt. Nú hefur hins vegar dregið úr vindi. Ekki sér ský á himni. Þeir halda ótrauðir áfram. Kl. 5.50 Við vorum að heyra í okkar mönnum. Þeir eru komnir á hrygginn sem liggur upp að Suðurtindi. Veður er enn gott en þeir sjá samt rjúka af Suðurtindi. Þeir eru í fínu formi, Nick hefur dregist nokkuð afturúr. Kl. 5.20 Okkar menn eru nú á sillu rétt undir Suðurtindi. Þeir eru að skipta um súrefniskúta og taka nýjan kút á Toppinn og til baka. Kl. 7.40 Strákarnir eru nú að kljást við síðustu metrana upp að Suðurtindi. Þetta er brött og erfið leið sem oft er hægt að komast á snjó. Okkur heyrist að nú sé um klettaklifur að ræða. Björn hafði þetta að segja fyrir nokkrum mínútum: Þetta er erfitt. Honum og þá aðallega ykkur til upplyftingar skal minnt á að þegar Edmund gamli staulaðist þetta 1953 var þessi kafli einna erfiðastur og hann segist hafa sagt við sjálfan sig: Ed, my boy, this is Everest, you've got to push it a bit harder. Svo Björn er afsakaður. Veður hér í grunnbúðum er með afbrigðum gott ennþá, Sólin er farin að skína og ekki skýhnoðri á himni enn. Svo hver veit, kannski höfum við dottið í lukkupottinn með veðrið. En það er langur vegur enn að tindinum og enn lengra niður. Kveðja úr grunnbúðum, Hörður Kl. 9.00 Björn náði Suðurtindi kl.8.15, strákarnir voru rétt á eftir honum. Það er miklum áfanga náð, þeir eru nú vel yfir 8700 m. og aðeins lokahryggurinn eftir. Færið er mjög slæmt, þar sem snjór er er brotaskari, þessi erfiði sem nær ekki að halda líkamsþunganum. Þarna uppi er það erfiðara en orð fá lýst. Þeir gera ráð fyrir allt að þremur tímum á tindinn ef færið helst svona erfitt. Nú ríður á stuðningnum, síðustu tímana. Svo má ekki gleyma því að það erfiðasta er eftir líka, að komast niður. Veður er gott hér og skaplegt uppi. Þegar ég var að hripa niður þessar línur flaug þyrla inn til lendingar yfir búðirnar. Henni hlekktist svo á á aðfluginu að lendingarstaðnum og fórst. Jón hljóp strax á staðinn og kemur með fréttir fljótlega. Hörður Kl. 10.35 Loks eru okkar menn farnir frá Suðurtindi. Það virðist hafa farið mikill tími í að leggja fastar línur yfir tindinn til að auðvelda niðurferð og svo skildi Pemba, einn sherpinn eftir súrefnið sem hann bar vel fyrir neðan tindinn. Það þurfti að ná í það áður en lengra var haldið. Þetta hefur tafið ferðina um a.m.k. 2 tíma. Það tekur a.m.k. 2 tíma að ná tindinum svo ekki má búast við að tindinum verði náð fyrr en rétt eftir hádegi. Þyrluflugmennirnir tveir frá nepalska flughernum sluppu með skrekkinn og stigu ómeiddir út úr flaki þyrlunnar sem fórst hér fyrir stundu. Svo virðist að um vélarbilun hafi verið að ræða og gerðu flugmennirnir vel í að ná að nauðlenda vélinni rétt hjá lendingarstaðnum og töluverðum mannfjölda. Kl. 11.50 Fyrir 10 mín. fengum við þær fréttir í gegnum bandaríska leiðangursmenn sem eru í fjórðu búðum með kíki að þeir sæu 6 menn nálgast Hillary Step sem er brattur og erfiður kafli miðja vegu millli Suðurskarðs og hátindsins. Aðstæður virtust góðar og hópurinn fór hratt yfir. Kl. 12.10 Við vorum að heyra frá okkar mönnum í talstöðinni að þeir væru komnir yfir Hillary Step. Hæðin er 8800 m, framundan er snjóhryggur ekki mjög brattur, Núna eru bara nokkur hundruð metrar eftir að tindinum og engir erfiðleikar. Takmarkið er innan seilingar. Það er farið að færast bros á okkur hér í grunnbúðum. Kl. 13.02 Kl. 12.58 að okkar tíma hér í Nepal og kl. 7.13 að ísl. tíma stigu þeir Björn Ólafsson, Einar Stefánsson og Hallgrímur Magnússon ásamt félögum sínum á hátind Mount Everest og urðu þar með fyrstir Íslendinga til að sigra hæsta fjall heims. Sigurkveðjur úr grunnbúðum og heim, til hamingju með strákana. Hörður og Jón Þór Efst Grunnbúðum, 19. maí Þá er teningunum kastað. Þeir félagar hafa ákveðið að láta slag standa og leggja á brattann í lokaáfangann núna kl. 23 í nótt. Hópurinn sem fer er: Björn Ólafsson Einar Stefánsson Hallgrímur Magnússon Nick Kekos aðstoðarleiðangursstjóri Chris Watts Chris Brown Sherpar: Ang Babu sherpa, Shirdar leiðangurssins Daeva sherpa Pende sherpa Nú liggur leiðin upp ísaðan og snarbrattan suðausturhrygg Everest. Það er um langan veg að fara, hækkunin er yfir 900 m og ekki má gleyma því að þeir 900 m liggja að hæsta tindi jarðar. Við höfum fréttir af því að eini stuðningur frá fyrri leiðöngrum er stutt lína sem Indónesarnir skildu eftir á erfiðum kafla rétt neðan við Suðurtind. Að öðru leyti þurfa okkar menn að sjá um allar klifurtryggingar. Hver leiðangursmaður er með tvær súrefnisflöskur, hvor dugir í 5-6 tíma ef notaðir eru tveir lítrar á mínútu. Að auki bera sherparnir eina flösku. Fyrsta flaska á að duga upp að Suðurtindi. Þar er ætlunin að skipta um flösku, til að hafa nýja síðasta spölinn. Súrefnið sem sherparnir bera er skilið eftir þar til að nota á niðurleiðinni. Sherparnir fara að líkindum ekki lengra nema þeir séu í frábæru formi en Babu fer samt örugglega á toppinn ef þangað verður farið á annað borð og bætir sjöundu ferðinni í safnið. Ef allt gengur að óskum má búast við að það taki um 9 tíma að ná tindinum og honum nái okkar menn um 8 í fyrramálið. En það þarf lítið út af að bera til að þeir tefjist því leiðin er erfið núna og súrefnistæki eru viðkvæm svo aðeins fátt eitt sé nefnt. Svo er niðurferðin eftir en hún er yfirleitt erfiðari, hvort sem tindinum er náð eða ekki. Einbeitingin minnkar hvort sem menn ná takmarkinu eða ekki. Það þarf því alltaf að hafa niðurferðina í huga og hafa næga krafta til að snúa við og komast niður, sama hversu nærri takmarkið er. Það hefur ekki reynst öllum auðvelt þegar á hólminn er komið, en þetta var grundvallaratriði í undirbúningi strákanna. Þessi ákvörðun að fara nú er sú erfiðasta sem allir þessir leiðangursmenn hafa staðið frammi fyrir. Veðurspá er svipuð og undanfarnar vikur, þ.e. 40-50 hnúta vindur. Málið er bara það að spáin er sú sama fyrir næstu daga og tíminn er orðinn naumur. Það hefur ekki farið að blása af fullum krafti fyrr en seinni partinn undanfarið að áliti okkar manna þar efra. Það eru því nokkrar líkur á að tími gefist til að fara á toppinn og langleiðina niður aftur í sæmilegu veðri. Þeir taka þá áhættu að veðrið versni á leiðinni, og snúa þurfi við ofarlega á fjallinu, svo ofarlega að fjallgangan hafi dregið slíkan þrótt úr mönnum að ekki verði um annan möguleika að ræða, tíminn renni út án annarrar tilraunar. Einnig er alltaf hættulegt að vera á ferli í brattlendi í slæmu veðri, sérstaklega ofan við 8000 m þar sem enginn tími gefst til að bíða af sér veður vegna þess hve hratt líkaminn missir þrótt. En þessi ákvörðun var engu að síður tekin að vandlega athuguðu máli. Babu, Shirdar leiðangursins, á að baki 6 uppferðir á Everest og hefur mesta reynslu allra hér og það er í raun hann sem á endanum segir af eða á. Það er mat hans að nú sé lag, og áhættan ekki of mikil. Ef veðrið reynist verra þegar komið er hærra, er hægt að snúa fljótt við og reyna aftur síðar. Við Jón þór erum komnir í dúnbuxur og jakka hér í grunnbúðum og stöndum talstöðvarvaktina. Fjarskiptatæki leiðangursins eru eins og svo oft áður í lamasessi og það eru því okkar ágætu Motorolatalstöðvar sem bera hitann og þungann af fjarskiptunum. En þar sem hugurinn er nú er mun kaldara en hér hjá okkur, strákarnir glíma nú við sína mestu þraut og þeim veitir ekki af andlegum stuðningi okkar og allra heima. Kl. 17.30 (11.45 að ísl. tíma) Drengirnir klifu upp í Suðurskarð í dag. Þeir fóru frekar seint af stað eða um 9 og voru 6 tíma á klifrinu. Þeir notuðu súrefni hluta leiðarinnar, bæði til að reyna tækin og einnig til að spara kraftana. Það tók svo um klukkustund að koma upp tjöldum og koma sér fyrir. Veður á uppleiðinni var gott en í Suðurskarði er rok og skafrenningur. Þeir eru allir við hestaheilsu og komnir í toppagírinn. Veðurspáin gerir ráð fyrir sama veðri á morgun og undanfarna daga eða 40-50 hnúta vindi. Það virðist ekkert lát á og því líklegt að ef veður verður skaplegt í kvöld að þeir láti slag standa. Ákvörðun verður tekin í kvöld, í síðasta lagi kl 22 en þeir leggja þá af stað kl 23. Það má segja að allir hér í Base Camp fylgist með, því okkar menn og Bretarnir þrír eru þeir einu sem eru tilbúnir í slaginn, allir aðrir eru enn í Base Camp. Við Jón Þór stöndum talstöðvarvaktina hér og munum senda inn fréttir jafnóðum á listann. Bestu kveðjur, Hörður Grunnbúðum kl. 0.15 Klukkan 0.12 kallaði Björn í okkur og tilkynnti mjög þvoglumæltur í gegnum súrefnisgrímuna að þeir félagar væru lagðir af stað í ævintýrið mikla. Þeir fengu ágæta hvíld í Suðurskarði og eru í góðu formi. Það kom í ljós hér áðan að tveir meðlimir í litlum nepölskum leiðangri læddust upp með okkar mönnum og þeir ætla að halda á toppinn í nótt eins og okkar menn. Hörður og Jón Grunnbúðum kl. 2.10 Núna klukkan 2 komu strákarnir aftur í 5. búðir í Suðurskarði eftir tæplega 2 klst. göngu. Þeir gengu upp í hríð og lítið skyggni fljótlega eftir að þeir lögðu af stað og ekki var um annað að ræða en að snúa við og hörfa aftur í búðirnar. Þeir hafa í huga að hvíla í fimmtu búðum á morgun og reyna aftur á morgun. Efst © 1997 Morgunblašiš Allur réttur įskilinn |