Unnur Eggertsdóttir er flutt til New York

Unnur Eggertsdóttir er flutt til New York.
Unnur Eggertsdóttir er flutt til New York.

Söngkonan og dansarinn Unnur Eggertsdóttir er flutt út til New York. Hún var að byrja í leiklistarnámi við skólann The American Academy of Dramatic Arts en þar lærðu leikarar á borð við Robert Redford, Kim Cattrall, Paul Rudd og Adam Scott. Unnur segist ekki enn vera búin að átta sig á breytingunni.

„Ég fór bara ein út og ég átti þvílíkt dramatískt „móment“ á flugvellinum þegar ég kvaddi foreldra mína, ég hágrét í gegnum allt security check-ið. Er eiginlega ekki ennþá búin að átta mig á því að ég sé að fara að búa hér næstu þrjú árin, mér finnst eins og ég sé að fara aftur heim bara eftir viku,“ útskýrir Unnur sem er að venjast nýja umhverfinu. „Mér líst ótrúlega vel á skólann og ég elska New York.“

„Borgin er búin að vera ofboðslega góð við mig síðustu daga, ég hef fengið yndislegt veður og hitt skemmtilegt fólk. New York-búar eru klárlega þeir steiktustu sem ég hef kynnst.“ 

Unnur býr á heimavist sem hún segir vera mjög skrítna tilfinningu. „Þetta er reyndar ekki svona týpísk heimavist eins og maður sér í bíómyndunum. Þetta eru frekar svona íbúðir. Á minni hæð erum við átta stelpur. Við erum tvær og tvær saman í herbergi, og svo með stóra stofu og eldhús og þrjú baðherbergi. Stelpurnar á hæðinni minni eru snarklikkaðar. Við erum strax orðnar mjög góðar vinkonur á þrem dögum en kannski mun ég hata þær þegar við erum búnar að búa saman í nokkra mánuði,“ segir Unnur í gríni og hlær.

Saknar Íslands og talar íslensku við útlendinga

New York hefur alltaf heillað Unni og hana hefur dreymt um að flytja þangað síðan hún var lítil stelpa. „Þessi borg hentar mér ótrúlega vel. Hér er mikil orka, óendanlegt framboð af leiksýningum og fjöldinn allur af fjölbreyttum listamönnum,“ segir Unnur sem hefur flakkað mikið um heiminn í gegnum tíðina.

„Þegar ég var þriggja ára fluttum við fjölskyldan til Spánar og þaðan til Belgíu. Svo bjuggum við í fjögur ár í Kaliforníu,“ útskýrir Unnur sem telur þessa reynslu hafa hjálpað henni mikið. „Í öllum þessum flutningum neyddist ég til að vera alltaf mjög opin í nýjum aðstæðum, það hjálpar mikið þegar maður byrjar í nýjum skóla þar sem maður þekkir engan.“

Unnur segist ekki vera komin með heimrá en hún saknar þó Íslands. „Eins væmið og það hljómar þá eru vinir mínir og fjölskylda mér allt og ég sakna þess að vera með þeim. Skype er bara ekki nóg. Stundum lendi ég  í því að gleyma mér og segja óvart eitthvað á íslensku við fólk. Til dæmis var ég í tölvunni áðan og sneri mér að vinkonu minni og spurði hana á íslensku hvort hún væri búin að sjá typpamyndirnar hennar Siggu Daggar, sem betur fer skildi hún ekki hvað ég sagði.“

Áhugasamir geta fylgst með Unni á blogginu hennar, UnnurEggerts.blogspot.com.

Unni líst vel á skólann sinn í New York.
Unni líst vel á skólann sinn í New York. Unnur Eggertsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál