„Innihald skiptir miklu máli í markaðssetningu“

María Hrund Marinósdóttir, formaður ÍMARK.
María Hrund Marinósdóttir, formaður ÍMARK. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður ÍMARK hverju sinni upplifir alltaf einhverja þróun í markaðsmálum hér á landi. María Hrund Marinósdóttir gegnir formennskunni óneitanlega á sérstaklega miklum umbrotatímum, hvað miðla og boðleiðir varðar.

Íslenskt atvinnulíf hefur um þessar mundir að mestu leyti náð vopnum sínum á ný eftir bankahrunið og kreppuna í kjölfarið. Það er forvitnilegt að heyra hvort formaður ÍMARK sér þess sérstök merki í markaðs- og kynningarstarfi fyrirtækja almennt, og hverjar birtingarmyndirnar eru þá helstar.

„Ég sé óneitanlega breytingu á markaðsstarfi fyrirtækja í dag samanborið við árin eftir hrun,“ svarar María. „Fyrirtæki eru að ná vopnum sínum og markaðssókn að aukast. Þetta sést vel á auglýsingum íslenskra fyrirtækja, fjölda þeirra, gæðum og almennt í markaðsstarfi. Hrunið hafði þau áhrif að fyrirtæki þurftu að hugsa hverja krónu betur og hvernig markaðsfé mætti nýta með sem hagkvæmustum hætti. Þetta hefur jákvæð áhrif á sköpunarkraft og útsjónarsemi. Markaðssetning snýst ekki um magn heldur gæði.“

Notkun miðla hefur breyst

„Notkun miðla hefur breyst töluvert með aukinni sókn og notkun samfélagsmiðla,“ segir María þegar talið berst að þróun á markaðsstarfinu hér á landi. „Þetta hefur gerst á ógnarhraða og mun sókn samfélagsmiðla aukast enn frekar á næstu árum. Þessi breytta staða gefur auglýsendum tækifæri til að nálgast skilgreinda markhópa enn betur en áður með minni tilkostnaði. Þrátt fyrir þessa þróun hafa hefðbundnu miðlarnir að mestu leyti haldið velli þótt ýmsir hafi spáð fyrir um annað. Persónulega trúi ég því að hefðbundnu miðlarnir gegni enn mjög mikilvægu hlutverki og að góð blanda þeirra og samfélagsmiðla sé vænlegust til árangurs.“

En hafa þá skilaboðin sjálf breyst líka, að einhverju leyti í takt við miðlana? María hugsar sig um.

„Skilaboðin hafa kannski ekki endilega breyst mikið nema þá helst að markaðurinn hefur áttað sig töluvert betur á því hvað innihald skiptir miklu máli í markaðssetningu. Það er mikil vinna að skipuleggja gjöfult markaðsstarf. Það dugar ekki til að setja mikið fé í auglýsingagerð og birta fyrir háar fjárhæðir einvörðungu. Það umhverfi sem við búum við krefst þess að skilaboð og leiðin að neytandanum sé úthugsuð, byggi á staðreyndum og skapandi hugsun. Það er með markaðsmálin eins og svo margt annað, þeir fiska sem róa.“

Íslendingar eru framarlega

Landinn hefur löngum haft á sér orð fyrir að vera fljótur að tileinka sér nýjungar þegar hann er á annað borð sannfærður um ágæti þeirra.

„Það eru breytilegir straumar og stefnur í þessu eins og í öllu öðru,“ segir María. „Frumleg, skapandi og vel útfærð hugmynd er samt kjarninn í góðri auglýsingu sama hvar við erum í heiminum. Íslendingar standa framarlega á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum. Við erum markaðslega þenkjandi þjóð og framleiðum góðar auglýsingar.

Sem dæmi um ólíka stöðu hér en annars staðar má nefna stöðu samfélagsmiðla í birtingakökunni. Samfélagsmiðlarnir fá töluvert stærra hlutfall af birtingafjármagni fyrirtækja í löndunum í kringum okkur. Í samantekt Fjölmiðlanefndar frá 2015 er hlutfall samfélagsmiðla af vefbirtingum undir 17% á Íslandi en 50% í Danmörku. En þróunin er hröð og ég tel að þetta muni breytast innan tíðar,“ bætir hún við.“

Engin ein gullin leið til

Í dag er komin á legg kynslóð sem þekkir ekkert annað en internetdrifinn heim en eldri kynslóðir hafa sumar kannski aldrei hoppað almennilega á vagninn hvað netið varðar. Er þá ekkert til lengur sem heitir „auglýsing sem allir sjá“? María er efins um það.

„Miðlaheimurinn er mjög breyttur frá því sem var þegar síða þrjú í Morgunblaðinu eða síðasta auglýsing fyrir sjónvarpsfréttir náði til allra. Áreitið er svo mikið úr öllum áttum að ekki fyrirfinnst lengur ein gullin leið til þess að nálgast neytendur. Þetta hefur líka marga kosti í för með sér. Ólíkar vörur og þjónusta höfða misjafnlega til ólíkra hópa neytenda. Þróunin í birtingaheiminum hjálpar okkur til að ná sérstaklega til skilgreinds hóps með markvissari og hagkvæmari hætti en áður. Í þessu felast endalaus tækifæri.“

Fjörinu er hvergi nærri lokið

ÍMARK dagurinn er uppskeruhátíð auglýsingafólks á Íslandi og ákveðinn hápunktur í starfi þess á hverju ári. Verður ekki svolítið spennufall í kjölfarið?

„Að baki er sérlega líflegur og spennandi vetur og fjörinu er hvergi nærri lokið,“ segir María og brosir við. „Það eru ekki nema þrjár vikur í námsferð ÍMARK sem fram fer í hinni skapandi borg San Francisco. Þar munu félagsmenn fá tækifæri til að heimsækja fyrirtæki sem náð hafa eftirtektarverðum árangri og kynna sér spennandi nýjungar í borg sem er getur talist suðupottur í markaðsmálum. Að því loknu taka við ýmsir spennandi viðburðir svo sem mannamót, ráðstefnur og fundir enda starfið fjölbreytt og í sífelldri þróun. Svo fer ný heimasíða ÍMARK í loftið á næstu dögum. Það má segja að á döfinni sé endalaust framboð af fræðslu og skemmtun svo það er um að gera að fylgjast vel með.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál