Súri húmorinn kom sér vel

Árshátíðamyndband læknanema á 4. ári hefur vaktið mikla athygli. Prímusmótorinn í þessari myndbandagerð er Kjartan Þórsson læknanemi. Hann er með svartan og súran húmor sem nýttist vel í gerð myndbandsins. 

„Þetta er eiginlega tvíþætt. Við vinirnir Jónas Bjartur Kjartansson og Ágúst Ingi Guðnason erum allir með svipað súran húmor og hittumst oft og náum að brainstorma alls konar skrýtna hluti sem eru misfyndnir. Oftast eru þetta hugmyndir sem spretta upp niðri á spítala og maður er alltaf að velta fyrir sér fyndnum aðstæðum og stundum byggja þær jafnvel á eigin reynslu,“ segir Kjartan og hlær og sver upp á tíu fingur að hann hafi ekki smakkað æxli. Hann bætir því við að Hilda Hrönn Guðmundsdóttir og Rósamunda Þórarinsdóttir hafi tekið að sér tónlistarmyndbandið og það sjáist hvað þær séu hæfileikaríkar og frjóar. 

„Þar var það þessi baráttuandi sem við finnum á spítalanum sem veitti innblástur, en þrátt fyrir erfitt ástand og mikið álag standa allir svo ótrúlega þétt saman og einhver skrýtin Pollýönnu-stemning ríkir yfir fólki. Síðan voru það staðalímyndir mismunandi læknastétta sem okkur fannst fyndið að ýkja og grínast með og blanda þessu tvennu saman,“ segir Kjartan. 

Baltasar Kormákur í hlutverki sínu í myndbandinu.
Baltasar Kormákur í hlutverki sínu í myndbandinu.

Hvað voruð þið mörg að pródúsera þetta?

„Auk þeirra sem ég nefndi hér að ofan fengum við aðstoð við upptökur og pródúseringu frá félögum okkar Ólafi E. Ólafarsyni, Jóhanni Bjarna Péturssyni og Helga Reyni Jónssyni.“

Hvað var skemmtilegast?

„Mér fannst sænski sketsinn vera eitt það fyndnara/steiktara sem ég hef gert. Þar vorum við búnir að brainstorma og útfæra hugmynd sem við fengum í haust og sáum hana loks verða að veruleika, maður verður eitthvað svo stoltur. Síðan er það svo epískt að sjá virðulega lækna og tala nú ekki um heilbrigðisráðherra vera nógu flippaða og með húmor fyrir sjálfum sér til að taka þátt í að taka upp sænskan hasarmyndatrailer um „Lækninn sem hatar sjúkdóma“.“

Ragnar Freyr Ingvarsson og pylsuvagninn er óborganlegt atriði. Segðu mér nánar frá því.

„Eitt kvöldið var ekkert spennandi á matseðlinum á Landspítalanum og ég hugsaði hvort það væri ekki kjörið að redda pylsuvagni eða einhverju svipuðu fyrir utan spítalann. Þar kom hugmyndin að því að Ragnar, Læknirinn í eldhúsinu, myndi að sjálfsögðu manna pylsuvagninn og hefði verið lokkaður í svona góða aðstöðu á Landspítalanum eftir langt og krefjandi sérfræðinám úti. Þannig að eins fyndið og það hljómaði, þá var þetta líka smá skot á hvað er verið að bjóða sérfræðimenntuðum læknum sem snúa aftur á Landspítalann, eins og t.d. að vera með skrifstofu sína úti í gámi. Samfélagið okkar þarf virkilega að fara að taka sig á við að standa vörð um heilbrigðiskerfið okkar.“

Ragnar Freyr Ingvarsson, Læknirinn í eldhúsinu, með pylsuvagn.
Ragnar Freyr Ingvarsson, Læknirinn í eldhúsinu, með pylsuvagn.

Hvað voruð þið lengi að gera árshátíðamyndbandið? 

„Handritagerðin stóð yfir í um hálft ár og síðan byrjuðum við að skipuleggja tökur í janúar og það fór um mánuður í sjálfar tökurnar og hluti þeim tengdum.“

Þegar ég spyr Kjartan út í hann sjálfan segist hann hafa komið víða við og hafi kannski ekki alltaf verið til fyrirmyndar. 

„Ég er ósköp eðlilegur frá mínum dyrum séð. Ég fann mig ekki í neinni hillu í æsku en var samt alltaf frekar listrænn og hafði gaman af að skapa hluti. Menntaskólatímabilið var skrautlegt og ég var frekar erfiður oft og tíðum og leið bara ekkert sérstaklega vel. Ég stundaði skóla illa en var alltaf með mín eigin verkefni í gangi sem ég hafði mikinn metnað fyrir og þar var það sérstaklega tónlistin sem hélt mér á beinu brautinni. Ég fór síðan sem skiptinemi til Venesúela sem breytti mér til hins betra og ég endaði síðan á því að flytjast til Kólumbíu fjórum árum seinna. Eftir að hafa prófað nokkur fög í háskólanum og með reynsluna frá Suður-Ameríku í farteskinu fann ég það út að læknisfræðin er eitthvað sem ég þráði að takast á við og hér er ég í dag. Hver ákvörðun sem ég tek í núinu er næsta púsl í stóru framtíðarmyndinni og þannig finnst mér þægilegast að feta mig áfram. Ef ég náði að komast frá því að vera týndur unglingur og á þann stað sem ég er á í dag ætla ég bara að halda áfram eftir sömu uppskrift og þá hlýtur framtíðin að reddast einhvern veginn.“

Sérðu þig fyrir þér sem Lækna-Tómas framtíðarinnar eða ertu meira Læknirinn í eldhúsinu?

„Ég lít mikið upp til þeirra beggja, frábærar fyrirmyndir. Ég borða frekar mikið og hef gaman af, þess vegna verð ég að segja læknirinn í eldhúsinu, verð meira læknirinn borðandi í eldhúsinu. Ég held líka að ég myndi ekki meika vöðvaniðurbrotið sem hlýst af löngu aðgerðunum sem Tommi sinnir, en maður fær víst ekkert að borða á meðan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál