Fantaflott ráð til að hreinsa líkamann

Þorbjörg Hafsteinsdóttir.
Þorbjörg Hafsteinsdóttir. Ernir Eyjólfsson

Næringarþerapistinn og hjúkrunarfræðingurinn, Þorbjörg Hafsteinsdóttir, sem skrifaði bókina 10 árum yngri á 10 vikum hreinsar líkamann í byrjun janúar til að núllstilla sig.

Hvað getur fólk gert sem líður ekki alveg nógu vel eftir jólin?

„Vanlíðan er oftast út af allt of miklum og tormeltum mat, sem gerir magann fullan af lofti og skít. Kökur og konfekt deyfa fólk og stela frá því orku. Þegar fólk er í þessu ástandi á það erfitt með að koma sér af stað. Þá er um að gera að losa sig eins og hægt er, drekka nægilegt vatn. Ekki er verra að drekka volgt vatn á morgnana svo þarmarnir fari vel af stað inn í daginn. Fólk þarf að borða trefjaríka fæðu eins og grænmeti og jafnvel taka inn trefjar sem bætiefni. Mikilvægt er að drekka mikið af vatni með þessu. Ég mæli með þarmalosandi tei í heilsubúðum. Svo þarf fólk að hreyfa sig og fara í göngutúra. Ég mæli með því að fólk prófi eitthvað nýtt eins og að ganga í vinnuna, það tekur stundum ekki nema hálftíma og fólk fær góðan göngutúr í kaupbæti. Góður göngutúr getur losað þig við tvö kíló á þremur vikum.“

Hver er einfaldasta leiðin til að losa sig við jólavömbina?

„Hreyfa sig reglulega og ekki bara í einhverju brjálæðisátaki í þrjár vikur, hætta öllu brauð- og sykuráti í einn mánuð, en borða meira af grænmeti og fiski. Magaæfingar eða húllahringur eru afbragð.“

Hvað á fólk að hreinsa líkamann lengi og með hvaða aðferðum mælir þú?

„Ég mæli með góðri hreinsun, kannski bara þriggja daga djús- og safaföstu eða gera þetta almennilega eins og t.d. í bókinni 10 árum yngri á 10 vikum þar sem vika 5-7 eru hreinsunarvikur. Þannig að allt frá þremur dögum upp í þrjár vikur á hreinsun. Það fer eftir hvort það sé hrein safahreinsun eða eins og þessi í 10 árum yngri t.d. sem er mjög heilbrigður kúr.“

Lifir þú öðruvísi lífi í janúar en aðra mánuði?

„Eiginlega jú, ég er líka á hreinsun og fylgi bókinni minni eins og er. Fer svo á safana hjá Alberti í Lifandi Markaði. Ég hreyfi mig eins og ég er vön, 3-4 sinnum í viku. En í ár er ég með skaddað hné þannig að ég ætla að fara til hennar Jakobínu Flosadóttur í smá „Bailine body sculpturing“.“

Hvað gerir þú til að núllstilla líkamann?

„Tek allt glúten, sykur og mjólkurvörur út. Fer á grænmetisduft frá NOW, sem ég hræri út í ferskan grænan safa eða bara vatn. Tek Acidophilus þrisvar á dag. Syndi og hugleiði í heita pottinum.“

Strengdir þú áramótaheit? „Nei, gleymdi því.“

Þorbjörg er komin til Íslands og ætlar að dvelja hér í nokkra mánuði áður en hún heldur á vit ævintýranna. Þegar hún er spurð að því hvað togi í hana nefnir hún snjóinn og myrkrið.

„Mér líður bara svo vel hérna heima og kann vel við myrkrið og snjóinn og rokið. Er að vinna með námskeiðin mín og 4 vikna heilsueflingarnámskeið sem byrjar 11. og 12. janúar. Það verður dúndur og þar verður, fyrir utan matinn og næringuna, hreinsun og detox, markmiðsvinna og ég rek mitt fólk áfram með harðri hendi,“ segir hún og hlær. Þeir sem eru spenntir geta skoðað námskeiðin á Lifandi Markaði.

Þorbjörg Hafsteinsdóttir.
Þorbjörg Hafsteinsdóttir. Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál