Faldi átröskunina með víðum fötum

Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir 2009 og 2015. Fyrri myndin er …
Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir 2009 og 2015. Fyrri myndin er reyndar tekin þegar hún var að leika í stuttmynd þarna 2009.

Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir nemi í Borgarholtsskóla fékk svínaflensu 2009 og varð mjög veik í kjölfarið. Hún áttaði sig ekki á því sjálf að hún væri með átröskun. 

„Eftir svínaflensuna áttaði ég mig á því að ég hafði ekki borðað í nánast viku og hefði misst einhver kg. Ég fann ekki fyrir svengd og áttaði mig á því að ég hafi fundið mjög auðvelda leið til að léttast. Ég hafði ekki verið ánægð með mig lengi enda var mér alltaf strítt fyrir að vera með stór brjóst. Þetta var hin fullkomna leið,“ segir Tanja. Hún segist ekki hafa áttað sig á því hvað þetta var hættulegt.

„Ég byrjaði smátt og smátt að minnka máltíðir og auka skammt af hægðarlyfjum samtímis. Ég var hætt að geta einbeitt mér í skólanum og var alltaf þreytt. Ég fékk allar flensur sem gengu og var mikið rúmliggjandi í 10.bekk sem átti að vera besti tími skólagöngunnar. Ég stundaði ekki íþróttir en varð heltekin af því að sippa og gera æfingar heima í herberginu mínu.“

Tanja grenntist mjög hratt á þessum tíma en faldi það með víðum fötum.

„Ég gekk til dæmis alltaf í mjög víðum peysum. Kannski peysum af mömmu minni sem samsvara mínum líkama engan veginn. Ég vildi ekki að neinn vissi þetta leyndarmál. Ég var ótrúlega meðvituð um líkama minn og borðaði yfirleitt ekki meira en eina máltíð á dag og stundum sleppti ég öllum máltíðum í einhvern tíma.

Á mjög stuttum tíma fór ég úr 58 kg niður í 45 kg. Úr mjög heilbrigðum kílóafjölda miðað við hæð niður í einhverja fáránlega tölu sem ég fæ stundum ennþá langanir í.“

Við tók skringilegt tímabil með endalausum sjúkrahúsferðum og blóðprufum. Það fór fyrir brjóstið á Tönju að fólk væri að skipta sér af hennar lífi og tilveru. Hún segist þó sjá það í dag og segir að hún hafi verið mjög veik á þessum tíma.

„Maður áttar sig engan veginn á því hversu veikur maður er – þrátt fyrir að liggja inni á deild með næringu í æð. Maður sér sig sjálfan ekki í réttu ljósi. Ég sá mig helmingi feitari en ég virkilega var. Ég fæ stundum fyrir hjartað að sjá myndir af mér frá þessum tíma.“

Tanja viðurkennir að þetta tímabil bitni á henni í dag og þá sérstaklega á heilsufari hennar.

„Ég fæ allar pestir og ónæmiskerfið mitt er í ruglinu. Það er svo mikilvægt að vera meðvitaður um þennan sjúkdóm og alvarleika hans. Það var ekki fyrr en 2013 að ég fékk hjálp. Pabbi fór með mig upp á BUGL þar sem ég komst í samstarf við Hvítabandið. Þá var ég búin að berjast við djöfulinn - ranghugmyndir og annan viðbjóð í 4 ár.

Ég er þakklát því að vera laus við þennan djöful að mestu leyti í dag. Ég er einnig innilega þakklát vinum mínum og yndislegu fjölskyldu minni sem hafa hjálpað mér og verið þolinmóð við mig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál