Meðgangan lagðist á andlegu hliðina

Sara og sonur hennar.
Sara og sonur hennar. Ljósmynd / skjáskot Instagram

Einka- og heilsumarkþjálfinn Sara Barðdal eignaðist son fyrir rúmum tveimur mánuðum. Eðlilega hægðist á í ræktinni, en Sara er nú farin að huga að heilsunni á ný eftir að hafa hvílt sig örlítið undanfarnar vikur.

Sara, sem heldur úti vefnum hiitfit.is, er enginn aukvisi þegar kemur að hreyfingu, en hún er að starta nýrri áskorun og ætlar að hjálpa fólki að mæta jólunum sterkari og orkumeiri.

Sara gaf sér tíma til að sitja fyrir svörum.

Þú eignaðist nýverið barn, varstu dugleg að hreyfa þig á meðgöngunni?

„Svo að ég sé alveg hreinskilin, þá var ég ekki eins dugleg og ég vonaðist eftir að vera í upphafi. Sem þjálfari skammast ég mín aðeins fyrir það að segja frá því, en þar sem ég var mjög viðkvæm í grindinni og upplifði mikið orkuleysi þá náði ég ekki að æfa eins og ég ætlaði mér. Einnig lagðist þessi meðganga meira á andlegu hliðina en ég átti von á, og þegar allt þetta spilar saman þá getur verið erfitt að koma sér af stað. En til þess að horfa á jákvæðu hliðina þá skil ég ennþá betur í dag hvað orka og andlega hliðin spila stórt hlutverk þegar kemur að því að viðhalda heilbrigðum lífsstíl og því legg ég ennþá meiri áherslu á að viðhalda því í dag.“

Núna ertu aftur að koma þér af stað, er æfingum öðruvísi háttað hjá þér heldur en vanalega?

„Fyrstu vikurnar þurfti ég að velja æfingarnar vel og fara varlega, því ég fann ennþá fyrir grindinni. En núna er ég öll að koma til og er nokkurn veginn byrjuð að æfa eins og ég gerði áður en ég varð ófrísk. Það er ótrúlegt hvað líkaminn er fljótur að taka við sér og styrkjast þegar maður byrjar að æfa. Manni líður líka svo miklu betur þegar maður byrjar að hreyfa sig og þess vegna langaði mig að hvetja fólk áfram með áskorun. Það er hægt að aðlaga flestar æfingar að því hvar maður er staddur hverju sinni og maður á ekki að láta neitt stoppa sig.“

En mataræðið, tók það breytingum á meðgöngunni og eftir hana?

„Já ég tók smá tímabil þar sem það var ekki nógu gott miðað við það sem ég er vön, aftur spilar orkuleysi og andlega hliðin svo stórt hlutverk þegar kemur að mataræði. Ég fann fljótt hvaða áhrif það hafði á mig og fór því að taka mig á og borða hollara fæði. Núna er ég á mjög góðu róli og er ótrúlega sátt við það jafnvægi sem ég hef náð að setja í fastar skorður. Fyrir mig snýst þetta allt um að finna jafnvægið og lifa ekki við boð og bönn, því þau eru hundleiðinleg og lífið er allt of stutt.“

Mælir þú með að konur hreyfi sig á meðgöngunni?

„Já algjörlega! Ef konur geta, þá eiga þær að halda áfram þeirri hreyfingu sem þær eru að stunda fyrir meðgöngu. Allar meðgöngur eru hins vegar ólíkar og sumar geta æft eins og ekkert sé á meðan aðrar þurfa að taka því meira rólega. Maður verður að muna að setja ekki of mikla pressu á sig og njóta tímans líka og fara vel með sig. Róleg hreyfing eins og göngur, sundleikfimi og yoga er eitthvað sem ég hef nýtt mér og mæli með fyrir ófrískar konur.“

Hvað ættu konur að hafa í huga þegar þær fara að stunda hreyfingu eftir að hafa gengið með barn?

„Byrja rólega! Mér finnst oft konur setja mikla pressu á sig að vera komin í topp form örfáum vikum eftir fæðingu, og margar fara alltof fljótt af stað. Líkaminn þarf tíma til að jafna sig og hvílast. Liðböndin í líkamanum eru mýkri eftir meðgöngu og enn á meðan konur eru með barn á brjósti, það þarf því fara varlega og meta hvar þolmörkin liggja.“

Sara Barðdal, einkaþjálfari og heilsumarkþjálfi, trúir að allir geti fundið …
Sara Barðdal, einkaþjálfari og heilsumarkþjálfi, trúir að allir geti fundið sér tíma til að hreyfa sig. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál