Fór í misheppnaða svuntuaðgerð

Jóna Kristín Sigurðardóttir breytti um lífsstíl fyrir 20 mánuðum síðan. Á þessum tíma léttist hún um 36 kíló sem gerði það að verkum að hún var með töluverða umframhúð á mitti og maga sem hún vildi gjarnan losna við en fór ekki við hefðbundna líkamsrækt. Jóna Kristín býr á Austfjörðum og ákvað að fara í svuntuaðgerð hjá lýtalækni til að láta fjarlægja húðina. Aðgerðin fór ekki eins og áætlað var. 

Forsaga málsins er sú að Jóna Kristín breytti um lífsstíl fyrir 20 mánuðum. Hún byrjaði í einkaþjálfun sem skilaði henni góðum árangri. Hún byrjaði að lyfta sem gerði það að brennslan fór á fullt. 

„Með því að lyfta lóðum þá loks fór brennslan af stað og svo fór ég að borða minna í einu og oftar en tók ekkert út og hafði engin boð né bönn nema hafði einn nammi dag í viku,“ segir Jóna Kristín sem æfði á hverjum degi í klukkutíma til tvö tíma í senn. Stundum mætti hún tvisvar á dag í ræktina. 

Þegar Jóna Kristín var búin að ná þessum góða árangri ákvað hún að stíga einu skrefi lengra og fara í svuntuaðgerð. Aðgerðin fór fram 24. maí í Domus Medica. Þegar ég spyr hana hvort hún hafi verið búin að hugsa sig nægilega vel um segir hún svo vera en játar að hún hafi alveg hugleitt það að aðgerðin gæti misheppnast. 

„Ég var með kvíðahnút þegar ég fór í aðgerðina en það var útskýrt fyrir mér að aðgerðin ætti að vera mjög einföld. Ég fór í aðgerð að morgni 24. maí á stofu í Domus Medica og aðgerðin gekk mjög vel að sögn lýtalæknis. Ég fór heim seinnipartinn /eða réttara sagt í íbúð sem ég var með á leigu í 2 vikur þar sem ég bý á landsbyggðinni. Ég fékk miða með mér heim um að mæta aftur til lýtalæknisins viku seinna til að láta taka drenin tvö sem sett voru upp eftir aðgerð.

Ég var svo heppin að maðurinn minn var með mér fyrri vikuna sem ég dvaldi í Reykjavík því ég var algjörlega ósjálfbjarga eftir aðgerðina og lá nánast bara fyrir. Ég mætti viku eftir aðgerð á stofu hjá lýtalækninum og drenin voru tekin og aðrar umbúðir af aðgerðarsvæðinu og settur grannur plástur á skurðinn. Búið var um naflann en naflinn er tekin frá í svona aðgerð og settur aftur á og í honum er saumur sem er tekinn 2 vikum eftir aðgerð. Þegar drenin voru tekin þá var lýtalæknirinn mjög sáttur og sagði að allt liti vel út og ég þyrfti ekkert að koma aftur í endurkomu fyrr en ég ætti bara leið í bæinn," segir hún.

Hún var viku lengur í Reykjavík enda búin að leigja sér íbúð í bænum í tvær vikur. 

„Þótt það væri mikill léttir að drenin væru farin þá var ég rosalega bólgin og tilfinningalaus á aðgerðarsvæðinu og með grjótharðan maga og gat engan vegin setið eða gengið. Ég gat bara legið. Tveimur vikum eftir aðgerð fer ég heim með flugi og fannst ég smám saman vera að lagast. Þremur dögum eftir heimkomu fæ ég mikinn hita og rauðan afar sáran blett í nárann þar sem dren var áður. Ég hafði samband við lækni sem skoðar mig mjög nett og segir strax að þetta sé sýking og ávísar á mig sýklalyfi og sendir mig aftur heim.

Ég er heima mjög lasin í tvo daga en þá versnar mér enn meir og roðinn verður enn stærri. Ég fer aftur til læknis sem sendir mig um leið á FSA sjúkrahúsið á Norðfirði. Þar er ég lögð inn og fékk sýklalyf í æð. 

Þar var tekið yndislega vel á móti mér og hugsað afar vel um mig og ég fékk sterk sýklalyf í æð eða fjóra skammta á sólarhring í 8 daga eða þar til ég var útskrifuð. Á þriðja degi á sjúkrahúsinu opnast gat á skurðinn og þar flæðir ígerðin út í lítra vís og var síðan tappað af mér næstu daga eða þar til sýkingin var nánast farin. Ég fór heim aftur 4 vikum eftir aðgerð með tvö opin sár sem heimilislæknirinn minn mun annast að hreinsa og skipta um umbúðir á hverjum degi auk þess sem ég verð í 10 daga í viðbót á sýklalyfjum. Núna rúmum mánuði eftir aðgerðina er stóra opið í skurðinum orðið hreint og pínu sýking í litla opinu en allt gengur vel,“ segir hún. 

Jóna Kristín segist vera enn töluvert bólgin en þó ekkert í líkingu við það sem hún var fyrir innlög á sjúkrahús FSA.

„Ég get smá saman setið aðeins lengur á hverjum degi og gengið smá, en ég er algjörlega óvinnufær ennþá en átti samkvæmt lýtalækninum að vera farin að vinna aftur 24. júní en á langt í land með að geta það,“ segir hún. 

Jóna Kristín segist ekki kenna einum né neinum um hvernig komið er fyrir henni. 

„Ég var bara óheppin að lenda í þessu en mér finnst persónulega eftir að hafa farið í gegnum þetta ferli að svona stórar aðgerðir eigi að gera á sjúkrahúsi og viðkomandi eigi að liggja inni í 10-14 daga undir eftirliti,“ segir hún. 

Hún segist nú bara taka einn dag í einu. 

„Ég vona bara að götin á skurðinum grói vel og að lokist en ég verð undir eftirliti lækna þangað til því er náð. Ég passa vel að lyfta engu þungu eða gera neitt sem reynir á aðgerðarsvæðið. Svo er ég smá að auka hreyfinguna og fara fyrst í örstuttar gönguferðir þegar allt er gróið og þannig ná upp þoli og gefa líkamanum tíma til að jafna sig og ekki gera neinar þungar æfingar í ræktinni fyrr en allt er vel gróið.“

Jóna Kristín segist vera þakklát fyrir að hún er jákvæð og bjartsýn að eðlisfari.

„Rétt eins og með slys þá gera þau ekki boð á undan sér, sama með þetta sýkingardæmi í mínu ferli. Það er bara óheppni. Ég ásaka ekki einn né neinn, en hefði aldrei farið í þessa aðgerð ef ég hefði vitað hvað biði mín.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál