Drakk bara vatn í heila viku

Steinþór Helgi Arnsteinsson drakk bara vatn í heila viku.
Steinþór Helgi Arnsteinsson drakk bara vatn í heila viku.

Steinþór Helgi Arnsteinsson, viðburðastjóri hjá CCP, fastaði í heila viku í nóvember. Í heila viku borðaði hann ekki neitt heldur drakk eingöngu vatn. Hann segir að áhrifin af föstunni séu stórkostleg þótt þetta hafi verið erfitt á köflum.

„Ég hef alltaf verið hrifinn af alls konar tegundum af föstum og mér finnst gaman að reyna á sjálfan mig. Þetta hefur verið að þróast í gegnum árin og ég hef verið að prófa mig áfram. Ég hef verið á Paleo-mataræði, stundað föstur eins og 16:8 og sleppt því að borða í einn og einn sólarhring,“ segir Steinþór. 

Hann segist hafa áttað sig á því að morgunmatur passaði ekki fyrir hann. Hann segist hafa reynt ítrekað að borða heilsusamlegan morgunmat og fann, að alveg sama hvað hann borðaði, hann var alltaf orðinn svangur aftur eftir klukkutíma. 

„Svengd er eitthvað sem ræðst ekki af því hvort þú þurfir mat eða ekki heldur spila hormón og líkamsstarfsemi þarna inn í. Ég sá heimildamynd um föstur á BBC og hef lesið bækur og greinar sem útskýra þetta betur,“ segir hann. 

Steinþór hafði prófað að fasta í einn og einn dag, fasta í þrjá daga og fimm daga þegar hann ákvað að taka þetta skrefinu lengra og fasta í heila viku. 

„Ég hef líka prófað djúsföstur og fann að þær henta ekki fyrir mig. Þær eru miklu óþægilegri en vatnsföstur því líkami minn er þannig að ef hann fær eitthvað smá að borða þá öskrar hann á meira. Annars er þetta persónubundið. Ég mæli með því að fólk prófi sig áfram því það er ekki neitt lífsstílstengt sem er gott fyrir alla,“ segir hann. 

Hann játar að hafa oft verið svangur en segir jafnframt að fyrstu þrír dagarnir hafi verið erfiðastir. 

„Svengdin kemur í bylgjum. Þegar ég finn fyrir svengd er líkaminn ekki endilega að segja að hann þurfi orku. Þetta kemur í bylgjum og gengur yfir. En það er merkilegt að upplifa líkamsstarfsemina á allt annan hátt. Líkaminn fer að forgangsraða öðruvísi þegar hann fær bara vatn.“

Hvernig þá?

„Mér fannst ég verða rólegri. Maður kynnist meltingarkerfinu betur þegar maður fer að pæla í svengd, í hvað þú ert að nota orku, hvenær dags þú borðar og þar fram eftir götunum. Þú upplifir hvað félagslegi hlutinn að borða, að setjast niður með einhverjum, skipuleggja hádegismat, er sterkur. En svo gerist margt jákvætt eins og það að húðin verður miklu betri, skynfæri verða skarpari, ég fann meiri lykt og heyrði betur,“ segir hann.

Föstur hafa mismunandi áhrif á fólk. Á meðan sumir verða orkumeiri verða aðrir það orkulitlir að þeir komast varla fram úr rúminu. Steinþór segir að hann hafi verið nokkuð sprækur þessa viku sem hann fastaði. 

„Ég var bara að lifa venjulegu lífi. Kíkti alveg í ræktina en var kannski meira að teygja og hanga, fór í heita og kalda pottinn, kíkti í IKEA og skrúfaði saman kommóðu,“ segir hann.

Steinþór játar að hann sé mjög öfgakenndur. 

„Ég hef mjög gaman af þessum öfgum. Ég tel sjálfan mig lifa mjög öfgakenndu lífi. Ég dýrka að reyna mjög mikið á líkamann en þess á milli drekk ég allt of mikinn bjór og borða allt of mikið nammi. Ég vinn of mikið og allt það og þess vegna er svo mikilvægt að núllstilla líkamann alveg.“

Hann segist ekki vera búinn að skipuleggja næstu föstu en segir að hann ætli pottþétt að taka aftur svona vatnsviku.

„Ég og kærastan mín erum að eignast okkar fyrsta barn eftir tvær vikur. Ég mun pottþétt gera þetta aftur. Í janúar ætla ég að vera á Keto-mataræði en ég á eftir að stúdera það aðeins. Vinur minn, Dóri DNA, hefur náð góðum árangri á því mataræði og mig langar að prófa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál