Hefur aldrei verið í betra formi en núna

Dóri DNA, grínisti, rithöfundur og leikari hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum þegar kemur að útliti og heilsu. Hann hefur prófað ýmislegt á undanförnum tveimur árum en segir að hreyfing sé undirstaða þess að honum líði vel. Hann ætlar að henda sér í nýjan kúr í haust og losa sig við átta kg til að verða sætur og „slim“ eins og hann segir sjálfur. Hann vill passa í tvenn jakkaföt sem hann á inni í fataskáp. 

Hvernig fórstu að því að grennast á sínum tíma? „Fyrir tveimur árum höfðum við konan mín ferðast í nokkur skipti til útlanda yfir sumarið og haft það aðeins of gott fyrir minn smekk. Mig langaði að refsa mér fyrir þetta tímabil og ákvað því að prófa ketó kúrinn. Ég gerði það í tvo og hálfan mánuð og þá byrjuðu hjólin að snúast hjá mér.“

Ketó virkaði greinilega fyrir Dóra DNA sem missti ein 14 kg á tveimur mánuðum. „Ketó virkar, það er ekki spurning, en fyrir minn smekk er kúrinn góður til að núllstilla líkamann og ná mér niður í ákveðna þyngd. Mér finnst hins vegar ekki ganga til lengdar að vera á sér kúr sem er svona strangur þegar þú vilt tilheyra í fimm manna fjölskyldu. Þess vegna hef ég verið að stunda tímabundnar föstur.“

Hvernig tímabundnar föstur virka best fyrir þig?

„Fyrir mig virkar best að vera á 18/6 föstunni. Þar sem ég borða ekkert í átján stundir á dag og borða síðan í sex stundir vanalega upp úr hádegi. Ég reyni að borða ekki eftir átta á kvöldin.“

Hreyfing skiptir miklu máli

Dóri DNA hefur mikla trú á hreyfingu bæði fyrir líkama og sál. „Ég hef verið duglegur í hnefaleikum að undanförnu, þar sem maður brennir mikilli orku. Ég stunda einnig æfingar og hlaup. Er byrjaður í kraftlyftingum sem ég hef verið að stunda í eitt ár núna. Ég hef verið að bæta á mig massa en ekki kílóum. Ég er kannski ekki sterkasti maðurinn á landinu, en ég tek 200 kg í hnébeygju og réttstöðulyftu og er bara ánægður með að ná því.“

Hvað getur þú sagt mér um Ketó? ,,Í ketó tekur þú út sykur og sterkju. Þú verður að borða mikið af fitu, annars færðu höfuðverk. Ég mæli með að fólk fari alveg í fráhald á sykri fyrstu dagana til að líkaminn byrji að „ketóa“. Þetta mataræði er fínt fyrir hlaupara og boxara en það vantar sprengikraftinn í mataræðinu fyrir kraftlyftingarnar.

Þú getur fitnað á ketó

Hvað ber að varast á þessu mataræði? ,,Þú verður að kynna þér mataræðið vel og mæli ég með „Reddit“ eða öðrum góðum síðum í slíkt. Þú getur alveg fitnað á ketó, ef þú telur ekki kaloríurnar og dettur í hnetusmjörið. Það er ótrúlega margt að varast en þetta mataræði hentaði mér vel. Það má borða osta, kjöt, egg og beikon og þetta er allt matur fyrir mann eins og mig. Eins verður þú að vera skynsamur þegar kemur að áfengi. Það passar ekki inn í ketó. Dóri útskýrir að diskurinn hans í ketó hafi samanstaðið af annarsvegar eggjum og beikoni sem er klassískur ketó matur og hins vegar nautakjöti, bernais-sósu og gúrku. „Mér finnst reyndar alveg galið þegar fólk er dottið í að reyna að baka sér eitthvað í ketó, þá er maður að daðra við eitthvað sem kúrinn ekki er. Hins vegar eru ótrúlega margir góðir í ketó og því margir sem vísa veginn og hægt er að lesa sér til um það.“

Kjötkúrinn í haust

Í haust ætlar Dóri að ráðast á það sem eftir er á bumbunni eins og hann útskýrir sjálfur. „Já, mig langar að tóna mig betur niður og láta glitta betur í þessa fallegu stóru vöðva sem ég er að byggja upp í kraftlyftingunum. Ég er ennþá alveg töluvert stór maður þó að ég sé við góða heilsu og líti mjög vel út. Mig langar að ráðast á það sem eftir er á bumbunni. En þessi kúr verður einskonar fegrunaraðgerð, þar sem ég ætla að taka einn mánuð í bara kjötát. Ég tek þá „carnivore“ kúrinn, en sleppi morgunmat og tek góða steik í hádeginu og á kvöldin. Það verður bara nóg af kjöti á diskinum mínum og svo einhver góð mæjonessósa. Síðan eftir kjötkúrinn ætla ég að taka föstu sem verður 20/4, þar sem ég fasta í 20 tíma og borða í fjóra tíma. Góður árangur af þessu verður að ég mun passa betur í tvenn glæsileg jakkaföt sem ég á inni í skáp og verð vonandi um 8 kg léttari að þyngd.“

Dóri er ánægður með sig eins og hann er. „En ég hef gaman af því að prófa mig áfram og reyna á mig. Eins gaman og ég hef af því að borða góðan mat líka.“

Vill ekki prumpa mikið

Hver er góður mælikvarði á rétt mataræði fyrir þig hverju sinni?

„Ég er með góða þumalfingursreglu og hún er sú að þegar ég prumpa mikið er ég ekki að borða rétt.“

Hvert er besta formið þitt til þessa?

„Ætli það sé ekki bara núna. Í fyrra tók ég þátt í maraþoninu og var léttari á mér og voða sætur. En í dag hef ég aldrei verið sterkari og myndi því segja að það væri mitt besta form til þessa.“

Kúnstin á bak við að líta vel út og að vera í góðu formi að mati Dóra er að hreyfa sig. „Enda geta góðir íþróttamenn borðar ótrúlegt magn af mat án þess að fitna. Mér finnst ég sofa betur og hvíla betur í mér ef ég er duglegur að æfa. Þá vakna ég hress og er alltaf í stuði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál