„Innst inni er ég sannur mínimalisti“

Innanhúsarkitektinn Berglind Berndsen er hrifin af einfaldleika.
Innanhúsarkitektinn Berglind Berndsen er hrifin af einfaldleika. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Innanhúsarkitektinn Berglind Berndsen ætlaði sér alltaf að verða arkitekt eða innanhúsarkitekt. Hún hafði mikinn áhuga á Bauhaus og mínimalisma og taldi Þýskaland vera rétta staðinn fyrir sig en hún lærði innanhúsarkitektúr í Fachochschule Trier í Þýskalandi.

Berglind er mikill reynslubolti og lumar á mörgum góðum ráðum varðandi innanhúshönnun. Að hennar mati geta fallegir jarðtónar til að mynda gert kraftaverk í hvaða rými sem er. „Ég heillast mest að gráum, og dempuðum jarðtónum í svefnherbergi til dæmis. Ég er á þeirri skoðun að fólk sofi betur í svefnherbergjum sem eru máluð í fallegum gráum lit. Fallegir og dempaðir jarðtónar á veggi og grænar plöntur setja punktinn yfir i-ið,“ segir Berglind.

„Það er svo sem allt í gangi í innanhúshönnun. Þetta fer allt í hringi. Innst inni er ég sannur mínimalisti og heillast af hráum efnivið. Ég elti ekki mikið tískustrauma. Ég fylgi alltaf mínum sérkennum og treysti eigin innsæi. Einfaldleiki og tímaleysi er hinn fullkomni grunnur fyrir mér,“ segir Berglind aðspurð að því hvaða tískustraumar í innanhúshönnun séu áberandi um þessar mundir.

Berglind kveðst fá innblástur úr öllum áttum, meðal annars frá öðrum íslenskum arkitektum og gömlum klassískum snillingum. „Það eru svo margir hönnuðir sem ég heillast af. Högna Sigurðardóttir arkitekt og öll hennar verk eru í miklu uppáhaldi hjá mér sem og hönnun Thelmu Friðriksdóttur og Rutar Kára. Gamlir meistarar eins Frank Lloyd Wright, Le Corbusier, Mies Van der Rohe, Mateusz Stolarski veita mér einnig innblástur.“

Dönsk hönnun í uppáhaldi

Berglindi þykir vænt um Fuzzy stólinn sinn og skrifborðið sitt en það eru hennar uppáhalds húsgögn. „Svo heillast ég alltaf jafn mikið af Eames hjónunum og allri danski hönnun. Danir eru einfaldlega snillingar þegar kemur að húsgagnahönnun, ég á erfitt með að gera upp á milli þar. Svo eru Tolomeo ljósin frá Artemide og Lampe Gras ljósin ein bestu og fallegustu ljós sem hönnuð hafa verið að mínu mati.“

Berglind segir stóra samhengið skipta mestu máli þegar innrétta á rými. „Mikilvægast finnst mér er að huga að sambandi á milli skipulags og notagildis í rýminu. Fólk hugar oft ekki ekki nógu vel að grunnskipulaginu sjálfu. Það þarf að úthugsa rýmið svo besta nýting náist. Mikilvægt er að skoða hvernig á koma öllum hlutunum fyrir áður en farið er að hanna inn í plássið. Fólk klikkar mjög oft á þessum atriðum.“

Berglind telur gott skipulag, einfaldleika og tímaleysi vera galdurinn að því að nýta lítil rými til hins ýtrasta. „Það þarf að ná þessu jafnvægi á milli skipulags og notagildis. Góð lýsing skiptir einnig miklu máli upp á heildarútlitið, lýsing hefur svo mikil áhrif á líðan fólks,“ útskýrir Berglind sem er þessa dagana að hanna nýtt hótel með vinkonu sinni, Helgu Sigurbjarnadóttur. „Það mun rísa í hjarta Reykjavíkur á næsta ári.“

Hönnun Le Corbusier er í uppáhaldi hjá Berglindi.
Hönnun Le Corbusier er í uppáhaldi hjá Berglindi.
Tolomeo ljósin frá Artemide eru ein bestu og fallegustu ljós …
Tolomeo ljósin frá Artemide eru ein bestu og fallegustu ljós sem hönnuð hafa verið að mati Berglindar.
Berglind heldur upp á hönnun Eames hjónanna.
Berglind heldur upp á hönnun Eames hjónanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál