Hægt að njóta jólanna án þess að sukka

Geir Gunnar Markússon.
Geir Gunnar Markússon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú eru jólin að nálgast með öllu óhófinu í jólaboðum, jólahlaðborðum, áfengisdrykkju, smákökuáti og hreyfingarleysi. En þetta þarf ekki að vera svona og við getum gert margt til að koma í veg fyrir að við þyngjumst yfir jólin. Það er vel hægt að njóta jólanna alveg í botn þótt maður gangi ekki fram af sér í mat, drykk og hreyfingarleysi,“ segir næringarfræðingurinn Geir Gunnar Markússon

„Jól og áramót eru rúmlega vika en undirbúningurinn er oft margir mánuðir og margir eru byrjaðir að huga að jólunum í október. Því er um að gera að vera meðvitaður um heilsu sína á þessum tíma því allar búðir og umhverfi okkar eru löðrandi í jólakræsingum s.s. jólaöli og konfekti. Gott máltæki segir „Það skiptir ekki máli hvað við borðum milli jóla og nýárs, heldur milli nýárs og jóla“, þ.e.a.s. allar hinar vikurnar 51. En þegar verslunarmenn eru farnir að hefja jólaundirbúninginn mörgum mánuðum fyrir jól þá skiptir mjög miklu máli að vera meðvitaður um heilsu sína á þessum tíma,“ útskýrir Geir Gunnar, sem lumar á nokkrum góðum heilsureglum og leiðbeiningum sem gott er að hafa í huga í jólaundirbúningum og yfir jólahátíðana. „Ef þeim er fylgt þá munið þið ekki bara koma heilsusamlegri út úr jólnum heldur verða jólin og undirbúningurinn mun skemmtilegri.“

1 Skerum niður ávexti í staðinn fyrir að neyta sætinda í óhófi

Það er mikið úrval af góðum ávöxtum um jólin eins og t.d. safaríkum mandarínum og jólaeplunum góðu. Ávextir eru nammi náttúrunnar en innihalda bara 10% sykur en ekki 100% eins og viðbættur sykur er. Auk þess eru ávextir stútfullir af vítamínum, steinefnum og trefjum. Leyfum börnunum á heimilinu að skera niður ávextina og þess vegna að búa til skemmtilegar fígúrúr þeim.

2 Borðum í meðvitund

Það er endalaust mikið af góðu sjónvarps- og afþreyingarefni í boði um jólin. Gætið að því að borða ekki mikið fyrir framan sjónvarp, tölvu, í bílnum eða annars staðar þar sem maður er að gera allt annað en að einbeita sér að því að borða. Meðvitundarlaust át veldur því að maður borðar mjög mikið og oft mjög sykurmiklar matvörur.

3 Borðum næringarríkan morgunverð – ALLA daga!

Þó að það séu jólin er mikilvægt að næra sig vel á á mikilvægustu máltíð dagsins sem er morgunmaturinn. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem borða morgunmat, borða síður óhollustu eins og sykurmiklar matvörur er líður á daginn og eru frekar í kjörþyngd.

4 Tyggjum matinn og njótum hans

Á jólunum erum við að borða einn allra bragðbesta mat sem við getum borðað. Því er um að gera að njóta matarins líka og tyggja vel (a.m.k. 20 sinnum). Ekki bara „gúffa“ í sig fullum disk af öllum kræsingunum og háma það í sig á nokkrum mínútum.

5 Búum til eigið jólakonfekt

Það eru mjög margir góðir kostir við það að búa til eigið konfekt. Oft er heimagert konfekt mun heilsusamlegra en fjöldaframleitt erlent Macintosh, t.d. fer minna af aukaefnum í eigið konfekt og við getum notað meira af dökku súkkulaði (+70%) sem er stútfullt af andoxunarefnum. Enn einn góður kostur við heimagert jólakonfekt er að við leggjum mikla vinnu og natni í það og förum því oft sparlega í að neyta þess.

6 Munum að brosa og gleðjast

Mataræði okkar stjórnast mikið af stjórnstöðinni/hausnum. Ef við erum hamingjusöm, með sjálfstraustið í lagi og okkur líður vel eru minni líkur á því að við borðum yfir okkar á jólahátíðinni. Í stað þess að drekkja sér í sætindum og góðgæti ætti maður að horfa á góða grínmynd og/eða hitta skemmtilegt fólk sem fær mann til að skellihlæja. Einnig er góð regla að heilsa fólki á förnum vegi með brosi, það kostar ekkert og getur verið sælgæti fyrir sál þína og þess sem tekur á móti því.

7 Sleppum sætuefnum og borðum frekar heiðarlegan sykur hóflega

Það er komið alltof mikið úrval af sætuefnum og við erum að troða sætuefnum í mikið af vörum sem við kaupum og bökum. Þessi neysla sætuefna er orðin óhófleg eins og sykurneyslan hjá mörgum. Í stað þess að baka 10 sortir af „hollari“ smákökum og neyta þeirra á hverjum degi í jólamánuðnum, neyttu frekar heiðarlegar, dísætrar ömmmuköku sjaldnar.

8 Jóla-hreyfi-dagatalið

Í stað þess að opna einn bjór eða borða sælgætismola á hverjum degi frá 1.-24. desember er mun heilsusamlegra að taka armbeygju- og hnébeygjudagatalið. Í því tekur þú eina armbeygju og eina hnébeygju 1. desember, tvær af hvoru 2. desember og svo koll af kolli þar til þú endar í 24 endurtekningum af hvoru á aðfangadag. Þú verður því útpumpaður og í fantaformi á aðfangadag.

9 Mokum snjó í nærumhverfi okkar

Í kringum jólin er jörðin oft þakin snjó og því um að gera að vígbúast góðri skóflu og moka snjóinn eins og enginn sé morgundagurinn. Jólin er kærleikshátíð og um að gera að láta góðverkin tala og mokum líka tröppur og innkeyrslu nágrannans, sérstaklega ef þið teljið að heilsa eða aldur leyfi það ekki. Setjum líka skófuna í bílinn og mokum bíla sem festast eða mokum bílaplanið í vinnunni.

Það besta úr öllum þessum mokstri er að þetta er frábær líkamsrækt sem reynir á flesta vöðva líkamans.

10 Förum út að leika – með börnunum eða okkur sjálfum

Oft þegar við eldumst gleymum við lífsglaða, áhyggjulausa og káta barninu í okkur. Það er um að gera að nýta jólafríið í að leika sér einn eða með börnum sínum, barnabörnum og frændsystkinum. Skelltu þér í kuldagallann eða regngallann og farðu í snjókast, eltingarleik, renndu þér á snjóþotu, búðu til snjókall, farðu í leiki og slökktu á þessum fullorðna einstakling sem þú telur þig vera. „Við erum bara eins gömul og okkur líður.“

Á jólum er öll fjölskyldan oft saman komin og er það nú ekki oft sem tími gefst til að öll fjölskyldan hreyfi sig saman. Að loknu miklu matarboði er fátt betra fyrir sál og líkama að fara út með allri fjölskyldu á skíði, í göngutúr, fjallgöngu eða hvað sem ykkur í dettur í hug. Látum veðráttuna á Íslandi ekki stoppa okkur að njóta samvista með fjölskyldunni. Klæðum okkur eftir veðri og brosum bara enn breiðar því verra sem veðrið er, eins og máltækið segir „Þá er ekki til vont veður bara illa klæddur maður“.

Áhugasamir geta nálgast fleiri góð ráð frá Geir Gunnari undir Facebook-síðunum Heilsugeirinn og Holl matarinnkaup.

Böffý og Geir Gunnar Markússon.
Böffý og Geir Gunnar Markússon. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál