c

Pistlar:

9. janúar 2012 kl. 12:13

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Styrkjum líkamann

styrkja_likamann.jpgÍ framhaldi af greinum mínum um triphala trefjaefnið og candida sveppasýkingu, langar mig að fjalla aðeins nánar um það hvað við getum gert til að hreinsa og styrkja líkamann. Auk breytt mataræðis, trefja og bætiefni má meðal annars taka probiotic-bakteríur eða acidophilus til að vinna gegn candida. Einnig má nota krydd eins og timían, óreganólauf eða rósmarín, sem styrkja mótsprynu við örverum eins og candida sveppnum. Og þari eða blöðruþang vinnur einnig gegn því að candida og annar bakteríugróður festi sig á þarmaveggina.

Við candida sveppasýkingu myndast oft bólgur í þörmunum. Góð leið til að draga úr bólgum og losa um uppsafnaðan úrgang er að leggja laxerolíubakstur á kviðinn í klukkustund í senn. Stórt flónelsstykki er þá vætt með volgri laxerolíu, það lagt á kviðinn og ofan á það er sett plast (t.d. klipptur plastpoki) sem nær alveg yfir stykkið. Ofan á það er síðan settur hitapoki eða annar hitabakstur, ofan á það handklæði og hitanum haldið við í 60 mínútur. Þetta má endurtaka a.m.k. 3svar sinnum í viku, jafnvel oftar.

Bæði karlar og konur geta fundið til kláða í kringum kynfæri ef sveppasýking er mikil í líkamanum. Oft duga krem eða lyfseðilsskyld lyf ekki til að ráða niðurlögum hans. Gott ráð er að bera kókosolíu á svæðið. Kláðinn ætti að hætta á 3-5 dögum. Virku efnin í kókosolíunni eru fitusýrurnar kaprýl-, kaprín- og lárínsýra. Þessar miðlungslöngu fitusýrur eru mjög öflugar gegn ýmsum örverum. Þær drepa bakteríur, vírusa og sveppi með því að brjóta niður frumuveggi þeirra. Rannsóknir sýna að allar fitusýrur geta unnið að því að drepa candida sveppinn, en kókosolía er jafn áhrifamikil og lyfið flúkónazól (Diflucan). Því ætti að nota hana til meðhöndlunar á sveppasýkingum, einkum candida-afbrigðunum sem erfitt er að meðhöndla með lyfjum.

Rannsóknir sýna jafnframt að þessar miðlungslöngu fitusýrur efla efnaskipti líkamans, hækka líkamshitann og leiða til meiri orku, en allt þetta getur leitt til þess að fólk grennist. Að auki hafa þessar fitusýrur eiginleika sem draga úr líkum á æxlum og efla ónæmiskerfið. Kaprínfitusýran hefur meðal annars verið rannsökuð við Háskóla Íslands, en hún virðist vera áhrifamest í að drepa öll þrjú afbrigðin af candida albicans sveppnum sem prófuð voru. Þriðja fitusýran, eða lárínfitusýran, virkar vel ef candida sýkingin er ekki orðin mjög mikil. Í raun ætti að kalla lárínfitusýruna eina af nauðsynlegu fitusýrunum, því hún er einungis framleidd af brjóstkirtlinum, ekki í lifrinni eins og aðrar mettaðar fitusýrur. Því er einungis hægt að fá hana eftir tveimur leiðum - í litlu magni af smjöri eða miklu magni af kókosolíu.

Heimildir: Grein Halldórs Þormar og fleiri um fitusýrur í kókosolíu:  Hún birtist í Applied and Environmental Microbiology, Vol.72, No.1, p.522-526, 2006.
Candida sveppasýking eftir Hallgrím Þ. Magnússon og Guðrúnu G. Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira