c

Pistlar:

7. febrúar 2016 kl. 15:51

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

"I will have a full english breakfast, sir - minus the toast!"

Lífið á lágkolvetnamatarræði gengur vel og það fer vel í mig, eins og raunar flesta sem það prófa. Það verður þó að viðurkennast að ég sakna brauðs og kartaflna - mun meira en bjórsins - furðulegt nokk! En það er samt auðvelt að sneiða framhjá því og velja sér eitthvað annað meðlæti - ég held að ég hafi t.d. aldrei borðað eins mikið salat og ég hef gert síðustu vikurnar. 

 

Svo eru það sunnudagsmorgnarnir. Síðastliðnar vikur hef ég farið til slátrarans á laugardögum og keypt helgarsteikina sem og laumað með nokkrum pylsum, stundum Cumberland pylsum, stundum með eplum - alltaf einstaklega ljúffengar!

 

Svo hef ég líka verið að smakka ólíkar blóðpylsur - bloodsausage eða boudin noir - sem eru einstaklega bragðgóðar. Talsvert ólík blóðmörinni íslensku sökum þess hvernig krydd eru sett í þær. Vissulega er notað smá mjöl í pylsurnar en það ætti ekki að koma að sök þar sem maður fær sér yfir leitt bara lítinn bita. 

 

"I will have a full english breakfast, sir - minus the toast!"

 

Þessi færsla er í raun engin uppskrift - heldur meira svona frásögn af hvernig sunnudagarnir hafa litið út á mínu heimili þegar við setjumst við morgunverðarborðið. 

 

 

Pylsurnar er best að steikja á lágum hita og taka sér nægan tíma.

 

Þegar búið er að brúna þær að utan er þeim skellt inn í ofn í um hálftíma á meðan maður sinnir restinni af morgunverðinum. 

 

Það eru alltaf sveppir með enskum morgunverði og svo steiktur tómatur. 

Baunirnar eru eiginlega brot á LKL reglunum en ég keypti dós sem var sykurskert og var einvörðungu með 9 g af kolvetnum fyrir hver 100 g af baunum. Ég lét mér nægja smá sýnishorn.

Eggin eru steikt í miklu smjöri! Smjör - ég elska smjör! Ég rétt brúna smjörið lítillega - beurre noisette - þá fær það smá hnetukeim áður en maður setur eggin á pönnuna. Svo er um að gera að ausa smjörinu yfir eggin á meðan þau eldast.

Svo er bara að segja gjörið þið svo vel! 

 

Dagurinn getur ekki orðið annað en góður!