c

Pistlar:

26. maí 2016 kl. 21:29

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Venesúela - land biðraðanna

Flestar stærstu fréttastofur heims flytja okkur nú fréttir af Venesúela eins og þar ríki stríðsástand. Svo er ekki en þó er landið á barmi glötunar. Efnahagur landsins er hruninn og ríkið virðist vera að falla saman. Stjórnarandstaðan er nú í meirihluta á þinginu en ríkisstjórn sósíalistans Nicolás Maduro hundsar þingið og stýrir með tilskipunum og aðstoð hers og lögreglu.

Stofnanir samfélagsins eru að lamast og Venesúela virðist í fullkominni upplausn. Fréttastofur sýna okkur nú ástandið á sjúkrahúsum landsins þar sem engin lyf eru fyrir hendi, tækin ónýt og starfsmenn fá ekki greitt. Í raun er tilgangslaust að leggja fólk inn á sjúkrahús, það er ekkert hægt að gera fyrir það. Á sama tíma ríkir fullkominn vöruskortur í landinu. Sky-fréttastofan sýndi í gærkvöldi viðtal við mann sem hafði staðið 5 tíma í biðröð og hafði tvær útrunnar majónesdósir upp úr krafsinu. Raðirnar eru endalausar og Washington Post kallar nú Venesúela land biðraðanna. Matur er af skornum skammti og fólk reynir að spara kraftana og óttast að hungurvofan sé handan við hornið. Atvinnulífið er smám saman að lamast.bið

Breytti stjórnarskránni

Það eru ekki bara forhertir kapítalistar sem undrast þetta skipbrot sósíalismans sem hefur verið rakið hér áður í nokkrum pistlum. Undrunin nær til flestra sem láta sig þjóðfélagsmál varða þar sem Venesúela hefur svo margt að bjóða íbúum sínum en er augljóslega að falla saman vegna hreinar óstjórnar. Og það á undraskömmum tíma og án þess að styrjöld verði um kennt. Allt má þetta rekja til Hugo Chávez sem ríkti sem forseti landsins frá 1999 til 2013. Maðurinn sem ætlaði að innleiða sósíalisma 21. aldarinnar og var fagnað víða sem sannri byltingahetju, maðurinn sem þyrði að bjóða heimsvaldastefnu Bandaríkjanna byrginn.

Eitt fyrstu verka Hugo Chávez sem forseta var að leysa upp þingið og reka hundruð dómara sem voru sakaðir um spillingu. Hann boðaði til stjórnarskrárþings í þeim tilgangi að leggja fram drög að nýrri stjórnarskrá, en Föðurlandssamband Chávez fékk yfir 90% sæta á þinginu. Chavéz knúði fram breytingar á stjórnarskránni sem m.a. tryggðu forsetanum stóraukin völd og í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fylgdi í júlí 2000 var Chávez endurkjörinn forseti landsins til 6 ára.

Starfað í anda BSRB?

Chávez þjóðnýtti í framhaldi þess atvinnustarfsemi landsins og lofaði að vinna fyrir þá fátæku. Fyrir það fékk hann lof, meira að segja hér á Íslandi. Ögmundur Jónasson, alþingismaður og fyrrverandi formaður BSRB, átti fund með José Sojo, sendiherra Venesúela, í febrúar 2010 og skrifaði í kjölfar þess langa færslu á heimasíðu sína. Þann fund sat einnig Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB. Eftir fundinn skrifaði Ögmundur:

Hvers vegna er Venezuela umtalað? Jú, vegna harðdrægni Hugos Chavez, forseta og stjórnar hans, í garð fjölþjóða-auðvaldsins sem fyrir stjórnartíð forsetans var að verða talsvert ágengt í að éta upp auðlindir landsmanna. Olíuiðnaðurinn í Venezuela hafði verið í þjóðareign frá miðjum áttunda áratugnum en í byrjun níunda áratugarins höfðu stjórnvöld opnað glufur fyrir erlend stórfyrirtæki að olíuauðlindum landsins. Þegar Chavez komst til valda árið 1999 höfðu þau þó aðeins eignast 20% af iðnaðinum en voru hratt að færa út kvíarnar. Annað sem þeim hafði tekist var að færa niður hlutdeild ríkisins í verðmætum olíunnar sem upp var dælt úr 30% í 1%! Þessu sneri Hugu Chavez og félagar við auk þess sem þeir festu í lög árið 2003 að almeningur (svo!)(í gegnum ríkið) ætti að hafa meirihlutaeign í olíuiðnaðinum.”

AGS kemur og fer

Með öðrum orðum, sósíalistar um allan heim horfðu vonaraugum til þjóðnýtingar og ríkisvæðingar alls rekstrar í Venesúela. Þannig yrði kapítalismanum og einkaframtakinu sýnt í tvo heimanna. Nú, sex árum eftir að Ögmundur skrifar þessa færslu er eina haldreipi Venesúela að kalla til Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Nafnið Venesúela þýðir „litlu Feneyjar”. Svo virðist sem örlög þess séu að sökkva í skuldafen. Gríðarleg lán landsins eru kominn á gjalddaga og ljóst að landið þarf á stórkostlegri utanaðkomandi aðstoð að halda. En sendiherra Venezúela ræddi einmitt fyrri aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við Ögmund sem lýsti því svona:

Hann  fræddi okkur um að komu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að efnahagskerfinu í Venezuela á tíunda áratugnum og „ráðlegginga" hans um einkavæðingu almannaþjónustu, þar á með símaþjónustunnar og flugfélags landsins. Því miður hefði verið farið að þessum kröfum en breytingarnar hefðu ekki gefist vel.”

Sjálfsagt mun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn koma aftur með sömu ráðleggingar og þannig reyna að auka framleiðni og skilvirkni í efnahagslífi landsins og vonandi að sjóðnum verði ágengt. Þangað til bíða Venesúelamenn eftir því að olían hækki í verði, það rigni almennilega og að Kínverjar samþykki að veita þeim fleiri lán.

Læknar fyrir olíu

En í sömu færslu upplýsir Ögmundur, með nokkurri aðdáun, að öflugt átak hefði verið gert í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í Venesúela með aðstoð Kúbverja og hafði hann eftir sendiherranum að um tuttugu þúsund kúbverskir heilbrigðisstarfsmenn (læknar, tannlæknar og hjúkrunarfræðingar) væru í Venesúela eða um 20% af öllum heilbrigðisstarfsmönnum sem þá voru til á Kúbu. Nú gæti kannski einhver undrað sig á því að fyrrverandi formaður BSRB sætti sig við jafn augljóslega gripaflutninga á opinberum starfsmönnum milli landa en augljóst er að hann hefur mikla velþóknun á þessum skiptum. Ögmundur getur þess þó ekki að sósíalistastjórnin á Kúbu fékk olíu afgreidda í staðinn fyrir heilbrigðisstarfsmenn sína samkvæmt átakinu olía fyrir lækna (e. oil for doctors). Í staðinn fyrir lækna fékk Kúba þá olíu sem landið þurfti eftir að Sovétríkin hættu að sjá þeim fyrir olíu. Hefur verið metið að þessi samningur hafi verið ígildi 3 milljarða Bandaríkjadala á ári. Hér hefði jafnvel einhver notað orð eins og mansal en sjálfsagt hafa kúbverskir heilbrigðisstarfsmenn stundum haft aðrar hugmyndir um frama sinn en að selja starfskrafta sína fyrir olíu í öðru landi. Reyndar er það svo að margir læknanna kvörtuðu yfir aðbúnaði og aðstöðu og ekki síður því að kúbverska ríkið hirti megnið af ábata starfsins í gegnum áðurgreind olíuviðskipti.

Undanfarin misseri hefur verið nokkuð um frásagnir af aðbúnaði þessara lækna en margir hafa brugðið á það ráð að flýja til Bandaríkjanna og komast þannig undan þessu sósíalíska mansal, og skiptir engu að það hafi njóti velþóknunar forystu BSRB á sínum tíma.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.