c

Pistlar:

12. júní 2016 kl. 23:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Betri einkunn og batnandi hagur

Stundum er rætt um punktstöðu, svona til að árétta að staðan sé svona núna en óvíst með framhaldið. Punktstaðan fyrir íslenska hagkerfið hefur verið ansi góð lengi og ekkert lát virðist á. Nú hefur verið upplýst að mats­fyr­ir­tækið Moo­dy's hef­ur ákveðið að Baa2-láns­hæfis­ein­kunn rík­is­sjóðs Íslands verði end­ur­met­in með hækk­un í huga eins og kom fram á mbl.is í vikunni. Fyrirtækið er að meta hvort ný fjár­mála­stefna og fjár­mála­áætl­un fyr­ir hið op­in­bera ásamt end­ur­bót­um á skatt­kerf­inu muni bæta sjálf­bærni skulda til meðallangs tíma.

Þá verði jafn­framt metið hvort vænt­an­legt útboð af­l­andskróna verði til að draga úr eða halda í skefj­um mögu­leg­um veik­leik­um í er­lendri stöðu þjóðarbús­ins þannig að al­menn los­un hafta gangi greiðar fyr­ir sig. Þá birti Moo­dy's einnig mats­skýrslu um Ísland fyrir helgi. Það kemur kannski ekki á óvart að styrkleikar hagkerfisins liggja meðal ann­ars í sveigj­an­legu hag­kerfi rík­is­ins. En það verður fróðlegt að sjá hvernig lánshæfismat ríkisins þróast næstu misseri en það skiptir miklu fyrir hagkerfið að fá hærri einkunn og lækka með því lántökukostnað landsmanna. Við sjáum að skuldastaða hins opinbera hefur lækkað með ævintýralegum hætti eins og sést á meðfylgjandi grafi. skuldir

Keppast við að spá hagvexti

En flestar spár eru Íslendingum hagfeldar núna. Samkvæmt spám fimm greiningaraðila verður hagvöxtur á mann hér á landi 3,8% á þessu ári og gangi spárnar eftir verður landsframleiðsla á mann árið 2016 hærri en árið 2007. Þetta kemur fram í efnahagsyfirlit Verslunarmannafélags Reykjavíkur sem gefið er út í tengslum við mánaðarlega stjórnarfundi félagsins. Yfirlitið er samantekt á hagtölum og öðru efni sem tengist vinnumarkaðs- og kjaramálum og er tilgangurinn að upplýsa og fræða launamenn um stöðu þjóðhagsmála hverju sinni.

Í efnahagsyfirliti VR kemur fram að hagvöxtur eftir hrun er mun heilbrigðari en fyrir hrun þegar hann var byggður að miklu leyti á aukinni skuldsetningu. Enn sjást mjög veik merki þess að skuldsetning heimila og fyrirtækja sé farin að aukast. Þá spá greiningaraðilar aukinni verðbólgu en nokkur munur er á spám þeirra. Flestir spá svipaðri verðbólgu árið 2016, eða 2%, en árið 2017 er nokkur munur á spám. Talsverð óvissa fylgir spám til langs tíma og afnám hafta bætir enn í þá óvissu. En lítum aðeins á áherslur í efnahagsyfirliti VR sem endurspegla vel þarfir launafólks.

Kaupmáttur eykst meira en einkaneysla

Hagvöxtur á 1. ársfjórðungi var knúinn áfram af fjárfestingu og einkaneyslu. Við því var að búast að einkaneysla myndi hafa mikil áhrif á hagvöxt en kaupmáttur hefur aukist talsvert seinasta árið, á 1. ársfjórðungi 2016 jókst kaupmáttur talsvert meira en einkaneysla. Það má því búast við því að einkaneysla aukist eitthvað á næstunni nema launamenn noti launahækkanir til að grynnka á skuldum eða auka sparnað.

Störfum heldur áfram að fjölga

Hlutfall starfandi er nú jafn hátt og í janúar 2006 og atvinnuleysi komið á svipaðar slóðir og í upphafi árs 2003. Hlutfall þeirra sem hafa vinnu hefur hækkað nær stanslaust frá upphafi árs 2013 og fátt sem bendir til þess að það breytist á næstunni. Í kjölfar hrunsins fækkaði vinnustundum að meðaltali um 5% en mörg fyrirtæki settu á yfirvinnubann eða skertu vinnutíma á annan hátt. Litlar sem engar breytingar hafa verið á vinnutíma frá hruni og engar vísbendingar um að hann sé að lengjast. Ástæðan gæti verið sú að enn sé yfirvinnubann innan fyrirtækja eða að um sé að ræða breytt viðhorf til vinnuvikunnar og launamenn kjósi að vinna minna en áður.

Verðbólga enn lág

Verðbólga mælist enn lág á helstu mælikvarða verðlags. Þannig eru enn engin skýr merki um að fyrirtæki hafi velt stórum hluta launahækkana seinasta árið út í verðlag. Líkt og var árið 2011 hefur hrávöruverð haft mikil áhrif á þróun verðlags undanfarið ár. Vísbendingar eru um að hrávöruverð sé aftur farið að hækka en slíkt mun hafa bein áhrif á verðbólgu á Íslandi. Spár um aukna verðbólgu á næstu misserum gætu að einhverju leyti verið of svartsýnar þar sem stór hluti umsaminna launahækkana er þegar kominn til vegna framhlaðinna kjarasamninga.

Bjartsýni eykst

Væntingavísitala Gallup nálgast hratt hámarkið fyrir hrun en vísitalan mælir tiltrú og væntingar fólks til efnahagslífsins, atvinnuástandsins og heildartekna heimilisins. Bjartsýni hefur aukist á sama tíma og störfum hefur fjölgað mikið og kaupmáttur fólks aukist. Sömu sögu er að segja um viðhorf stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins og telja þeir stöðu atvinnulífsins góða en vísitala efnahagslífsins hefur aðeins í tvö skipti mælst hærri af síðustu 49 skiptum.

Af þessu sést að punktstaðan fyrir íslenskt efnahagslíf er ákaflega góð. Það þarf ekki efnahagsyfirlit VR eða 5 greiningaraðila til að segja það. Erlend lánshæfismatsfyrirtæki sjá það einnig. Við vitum sem er að það er engin trygging fyrir því að svona verði ástandið áfram.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.