Íslensk kona lýsir reynslu sinni af Tinder

Stefnumótaforritið Tinder er vinsælt um þessar mundir.
Stefnumótaforritið Tinder er vinsælt um þessar mundir.

 „Þetta er ágætis afþreying,“ segir ung kona sem vill ekki láta nafns síns getið, aðspurð um reynslu hennar af stefnumótaforritinu Tinder. Hún kveðst ekki hafa haft neinar ákveðnar væntingar til forritsins í upphafi. „Ef maður hittir nú einhvern æðislegan gaur þá gerist bara það sem gerist.“

Konan hefur aðeins hitt einn mann sem hún kynntist í gegnum forritið en ætlar hugsanlega að hitta annan mann án þess að hafa rómantískt samband í huga. „Hef bara hitt einn strák sem ég kynntist á Tinder. Og ég mun kannski hitta annan bráðum í borgarferð til London en hann býr í um 40 mínútna fjarlægð frá borginni. Þennan sem ég mun hugsanlega hitta hef ég spjallað við „on and off“ á Facebook en það er ekkert í gangi á milli okkar, nema vinskapur. Ég held að þetta sé frekar einmana gaur, ég bauðst til að vera „his wingman“ ef við færum á djammið,“ segir konan. 

„En gaurinn sem ég hitti er erlendur háskólanemi. Ég hitti hann upprunalega vegna forvitni, mér leiddist svo ég kíkti í mjög sakleysislega heimsókn. Núna hef ég hitt hann nokkrum sinnum. Það er misjafnt hvort við „leikum okkur" eða ekki en það var alls ekki ætlunin í upphafi. Ég var búin að segja honum það áður en við hittumst að ég væri ekki í leit að kynlífi. Ég er ekki viss um að íslensku strákarnir sem ég hef talað við hefðu haft mikinn áhuga á að hitta mig eftir slíka tilkynningu.“

Íslenskir strákar frekar í leit að kynlífi

„Einn íslenskur gaur sem ég var að tala við langaði rosalega mikið til þess að fá mig í heimsókn. Hann var mjög hreinskilinn og sagði mér að hann væri í leit að bólfélaga. Ég hef átt bólfélaga áður, það var maður sem ég hefði aldrei getað hugsað mér að vera í alvarlegu sambandi með en það samband endaði illa og ég ætlaði ekki að koma mér í þá stöðu aftur,“ segir konan sem hefur verið á lausu í um tvö og hálft ár. „Ég finn að ég er tilbúin í eitthvað meira. En mig langar ekki að kynnast gaur á Tinder. En það er samt eitthvað sem ég ætla ekki að útiloka alveg.“

„Íslenskir strákar koma gjarnan með eina spurningu í upphafi spjallsins en sú spurning er: „Hverju ert þú svo að leita að hérna inni?“ Ég held þeir séu að vonast eftir svarinu: „kynlífi“. Ég hata þessa spurningu og ég man ekki eftir að hafa fengið þessa spurningu á ensku. Ef samtalið við íslensku strákana hefst á ekki á einhverju kynferðislegu þá eru þeir hættir að tala við mann eftir um einn sólarhring.“

Útlenskir menn bjóða stelpum gjarnan út á kaffihús eða á bar að sögn konunnar. „En íslenskir gaurar bjóða manni heim í kúr!“

Konan segir meirihluta notenda Tinder vera einhleypa en hún hefur þó heyrt þess dæmi að fólk í sambandi noti forritið líka. „Það færi í taugarnar á mér ef maki minn væri alltaf á Tinder.“

Stefnumótamenningin á Íslandi steindauð

„Kannski er ég bara mjög fordómafull gagnvart íslenskum strákum og stefnumótamenningunni á Íslandi sem er gjörsamlega steindauð. Kannski eru íslenskir strákar bara svona svakalega feimnir. Kannski er ég bara sjúklega óaðlaðandi, hvað á maður að halda? Auðvitað er fullt af góðum gæjum þarna úti, ég vil ekki vera of grimm við íslensku gaurana. En erlendir menn eru síður feimnir við að kynnast manni og sýna áhuga.“

Íslensk kona sem notar Tinder segir íslenska menn vera feimna …
Íslensk kona sem notar Tinder segir íslenska menn vera feimna við að bjóða konum út á kaffihús eða á bar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál