Lyktarskyn stýrir makavali

mbl.is/ThinkstockPhotos

Leyndarmál húðarinnar eftir Dr. Yael Adler var að koma út í íslenskri þýðingu hjá Veröld. Bókin varpar ljósi á marga áhugaverða hluti eins og til dæmis að líkamslykt stýri makavali fólks. Getur verið að ilmvötn nútímans geri það að verkum að fólk velji sér rangan maka? 

Hér fyrir neðan er einn kafli út bókinni sem fjallar einmitt um tælingarefni, svita, hor og líkamslykt: 

Kirtlar og seyti frá þeim: um tælingarefni, svita og hor og hvernig húðin nemur lykt

Ég veit ekki hvað ykkur finnst um það þegar foreldrar ykkar segja ykkur frá kynlífi sínu. Fyrir marga er þetta algjör martröð en aðrir láta sér það lynda. Öðrum finnst það hugsanlega jákvætt – alla vega ert þú ávöxtur ástar þeirra. Hins vegar slær það mann út af laginu ef vinir foreldranna ræða þessi málefni í viðurvist manns. Snarlega fer maður þá sem barn foreldra sinna aftur í hlutverk barnsins, jafnvel þótt maður sé löngu vaxinn upp úr því.

Eftirfarandi gerðist í hátíðlegri veislu sem foreldrar mínir héldu: Vinkona mömmu sagði frá því hátt og skýrt við borðið að það væri ekki til neitt betra en lyktin af kynfærum karla í ástarleik. Foreldrar mínir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið; ég veit ekki hvort þetta hefði verið eins vandræðalegt fyrir þau ef ég (barnið) hefði ekki setið við borðið. Ég hélt niðri í mér andanum, hreyfði mig ekki og horfði á fólkið við borðið. Það fór ekki á milli mála að hver hugsaði sitt. Allir fóru náttúrlega að ímynda sér hvernig kynfæri eiginmanns vinkonunnar, sem einnig sat við borðið, lyktuðu eiginlega.

Leyndarmál húðarinnar eftir Dr. Yael Adler er full af áhugaverðum …
Leyndarmál húðarinnar eftir Dr. Yael Adler er full af áhugaverðum upplýsingum.

Kirtlarnir í húðinni, seyti þeirra og sýklabyggðin, sem nærist á þeim með allar sínar efnaskiptavörur, ákveða líkamslykt hverrar manneskju.

Við gerum greinarmun á tveimur gerðum kirtla: hefðbundnum svitakirtlum og tilbrigðum þeirra, lyktarkirtlunum. Hinir fyrrnefndu eru í miklum meirihluta. Samtals liggja meira en þrjár milljónir svitakirtla út um allt í húðinni, en varirnar og kóngurinn eru undanskilin. Kirtlarnir eru eins og hnyklar djúpt í leðurhúðinni. Fráveituleið þessara eitla er á yfirborði húðarinnar.

Þeir eru sérstaklega margir á iljunum (700 stykki á fersentimetra) og í handarkrikunum (um 150 á fersentimetra). Á bakinu dreifast þeir sparlega, eru aðeins 64 á hverjum fersentimetra. Þeir eru stærri í íþróttafólki en hjá þeim sem ekki stunda íþróttir. Þegar með þarf framleiða þeir tíu lítra af svita á dag. Venjulega eru þetta hins vegar 100 til 200 millilítrar. Ef þið síðan spyrjið ykkur hvers vegna maður ætti að drekka að minnsta kosti 1,5 lítra á dag, þá er svarið þetta: Við missum til viðbótar mikið vatn í gegnum hægðir og þvag, öndun og ósýnilega uppgufun í gegnum húðina.

Boðefnið sem örvar svita- og lyktarkirtlana er til að mynda það sama og við notum til að stýra vöðvunum: Asetýlkólín. Þess vegna er hægt að lama hvort tveggja með bótoxi.

Hiti, stress, yfirþyngd, losti og aðrar tilfinningar geta sett boðefnin í svitakirtlunum í gang. Maður verður blautur í lófunum og á fótunum af svita og hendur og fætur verða fyrir vikið betur til þess fallin að ná gripi. Þar sem steinaldarlíkaminn okkar setur samasemmerki á milli stress og hættu á árás gerir hann hendurnar og fæturna rök þannig að við rennum ekki á flóttanum undan villtum rándýrum. Svitinn er 99 prósent vatn sem er komið úr blóðinu. Hann gagnast við að viðhalda súru pH-gildi húðarinnar, sýruverndarkápunni og við að stýra hitastiginu. Svitinn gufar upp af húðinni og kælir hana þannig.

Einhverjar leifar af blóðinu eru enn í svitanum: sölt, kalíum, ammoníak, mjólkursýra, þvagefni, amínósýrur, prótín, glúkósi, boðefni og ensím, sem og lyfjarestar og vírusar. Tæknilega séð getur sviti verið smitberi og þess vegna er mögulegt að lifrarbólga B smitist við náið samneyti.

Of mikil svitamyndun á ákveðnum stöðum líkamans, eða öllum líkamanum, er ekki eðlilegt ástand og er kallað Hyperhidrosis (ofursviti). Maður ætti alltaf að fá úr því skorið hvort um sé að ræða sjúkdóm í skjaldkirtli, sykursýki, krabbamein, sýkingar eða smit. Eitt af viðvörunarmerkjunum er svo mikill nætursviti að maður þarf að skipta um náttföt.

Of mikil svitamyndun er meðhöndluð með svitalyktareyði sem inniheldur ál-klóríð sem verður til þess að svitakirtlarnir þrengjast. Umræður um svitalyktareyði sem inniheldur álklóríð koma reglulega upp, því ál kemst með þessum hætti inn í líkamann í gegnum húðina og það getur aukið líkurnar á heilabilun og brjóstakrabbameini. Ósködduð húðvörn er auðvitað töluvert sterkur veggur sem lætur ál ekki komast að í neinu magni. Hversu mikið ál kemst í gegnum húðina er ekki vitað, en ljóst er að það á greiðari leið inn í nýrakaða húð þar sem búið er að veikja varnarvegginn. Raunin er sú að við tökum til okkar ál, sem er náttúrulegt og þriðja algengasta frumefnið í jarðskorpunni, daglega í gegnum matinn og drykkjarvatnið. Ál losnar einnig úr álpappír og álgrillbökkum, sér í lagi ef það kemst í snertingu við súr-salta næringu.

Ál er að finna í mörgum snyrtivörum, sólkremum, tannkremi og varalit, sem og í bólusetningarefnum og magatöflum.

Það hvort hættan á heilabilun og brjóstakrabbameini er meiri í gegnum þessi efni en svitalyktareyði er enn viðfangsefni á borði vísindanna. Fyrir þá sem svitna mikið eru slíkir svitastopparar blessun í hversdagslífinu. Önnur ráð gegn ofursvita eru töflur sem virka á ósjálfráða taugakerfið, bótox-sprautur í þau svæði húðarinnar sem svitna og vatns- og rafmagnsmeðferð á lágum straumi. Sú aðferð sem enn er beitt, að loka fyrir taugaþræði til að draga úr svitamyndun, getur því miður leitt til þungbærra aukaverkana. Með þessari aðgerð er nefnilega megintaugin í sympatíska taugakerfinu í bolnum trufluð þannig að svitinn á viðkomandi svæðum gengur aftur til baka sem verður til þess að maður svitnar mun meira á öðrum stöðum, til að mynda á rassinum.

Ein af afleiðingum þessa inngrips getur einnig verið sigið augnlok þar sem sympatíska taugin gegnir stóru hlutverki við að halda augnlokinu spenntu og opnu.

Sá sem svitnar stöðugt þjáist af sífelldri rakamyndun í verndandi varnarlaginu og bakteríutegundirnar fá ákjósanlegan stað til að fjölga sér.

Ferskur sviti lyktar ekki. Það er ekki fyrr en bakteríurnar byrja að vinna vinnuna sína og brotna niður í svitanum sem hann byrjar að lykta. Svitinn úr lyktarkirtlunum er sérlega öflugur. Fitusýrurnar á húðinni og hornfrumurnar gefa einnig frá sér áberandi lykt meðan bakteríurnar eru að melta þær. Þannig verður til illa lyktandi sýra eins og smjör-, maura- eða ediksýra og aðrar einfaldar fitusýrukeðjur sem eru meginilmefnin í Emmentaler-osti, Limburger-osti, þráu smjöri, geitakofum og ælu.

Þess má geta að efnafræðingar í matvælaiðnaði nota svitasýru í ilmefnagerð fyrir jógúrt og eftirrétti. Með því móti er hægt að skapa gerviilm af banönum eða ananas. Girnilegt, ekki satt?

Í loftþéttum skóm eða í húðfellingum þar sem ekkert loft kemst að, myndast lokað og rakt svitahólf, lyktarparadís. Strax hjá litlum börnum er hægt að finna lykt á milli tánna. Því lengur sem bakteríurnar geta unnið óhindrað, þeim mun sterkari verður ilmurinn.

 

mbl.is/ThinkstockPhotos

 

Svitinn sem kemur úr lyktarkirtlunum er seigfljótandi og mjólkurgrár, því hann er vel birgður af fitu og eggjahvítuefnum. Í kynlífi þar sem parið svitnar mikið og bólfélaginn ilmar, safnast gjarnan upp svitapollur í nafla útafliggjandi örmagna elskhugans, ástarpollur úr seyti lyktarkirtlanna.

Hungraðar kórínubakteríur, sem eru yfirgnæfandi hjá karlmönnum, taka seytið til sín. Hjá konum eru örhnettlur í meirihluta hefðbundinnar húðflóru. Karlar eru þar af leiðandi með stingandi svitalykt en konur með frekar súra svitalykt. Í læknisfræðinni er orðið Bromhidrose notað yfir sérlega vonda svitalykt. Orðið er ættað úr grísku og þýðir svitaóþefur.

Lyktarkirtlarnir gegna hins vegar líka góðu hlutverki. Útleið þeirra liggur ekki í gegnum yfirborð húðarinnar eins og hjá svitakirtlunum, heldur í gegnum hárrásirnar. Skapahárin sem og höfuðhárin geyma að miklu leyti þau efni sem gera okkur kynferðislega heillandi.

Þegar hár í handarkrika og skapahár eru rennblaut af svita geta þau veitt meiri kælandi uppgufun, þau sjá líka að nokkru leyti til þess að svæðin kringum handarkrikann og kynfærin séu ekki of lokuð og að loft komist þar að. Ef við hefðum hár á milli tánna, væri vel hægt að koma í veg fyrir táfýlu.

Skapa- og handarkrikahár bjóða stærri fleti sem svita- og lyktarbakteríur geta fest sig við. Þetta eru þær ástæður sem gefnar eru fyrir því að raka sig á þessum stöðum. Jafnvel þó sérlega hreinlegar manneskjur eigi það til að þvo sér rækilega um klofið, munu þær fljótt sjá að ákveðinn ilmur hverfur sjaldan eða aldrei og skýtur aftur upp kollinum eftir stuttan tíma. Ástæðan er lyktarkirtlarnir sem tryggja stöðugt lyktarframboð. Alveg frá því að manneskjan verður kynþroska, hefur hún sína eigin lykt, sitt eigið ilmvatn á kynfærum og rassi, undir höndunum, að hluta til í andliti, á höfðinu, á skrokknum sem og geirvörtunum. Og allt þetta hefur tilgang: Manneskjan tjáir sig með orðum, hegðun, látbragði, bendingum og líkamslykt. Suma lykt skynjum við mjög sterkt, þegar einhver lyktar af svita, fitu eða táfýlu; aðra hluta líkamslyktar skynjum við aðeins ómeðvitað.

Hjá dýrum er lykt ákveðið merki. Á síðustu árum hafa komið fram vísbendingar um að þessi sömu áhrif sé einnig að finna hjá manninum. Málið snýst um virkni ferómóna. Ferómón draga barnið að brjósti móður sinnar, hafa áhrif á kynlífshegðun og val á maka, en þau geta einnig miðlað hræðslu og hættuástandi – leitt af sér sannan þef af óvissu.

Það er af þessum ástæðum sem hundar fara gjarnan rakleitt til þeirra sem fá hjartsláttartruflanir bara við það að líta á fjórfætlinginn. Hræðslulyktin sem streymir frá manneskjunni er á þessu augnabliki sem lyktarhimnaríki fyrir slægan rakkann. Önnur lyktarmerki sem eru tilkomin vegna skyndilegs adrenalínflæðis geta til dæmis falið í sér aðvörun. Lyktarlíffæri mögulegs árásarmanns gefa frá sér upplýsingar á borð við þessar: „Varúð, ég er hættulegur! Komið ekki nálægt mér.“

Fólk sýnir þeim athygli sem því finnst lykta vel og laðast að þeim á erótískan hátt sem því finnst lykta afar vel. Konur hafa sérstaklega gott lyktarskyn. Í samhengi við þann hæfileika þeirra að lesa tilfinningar fólks úr andlitum þess, gefur þetta þeim forskot fram yfir karlmenn í hversdagslífinu.

mbl.is/ThinkstockPhotos

Þegar karlmaður vill sýna hvað hann er merkilegur gaur, sest hann gleiðfættur og slakur og setur hendurnar á bak við höfuðið. Skilaboð til kvennanna: „Hérna. Finndu lyktina af mér!“ Með þessu opnar hann fyrir loftstraum frá klofinu og holhöndunum og úðar frá sér ferómónum af ómótstæðilegum karlmannleika. Vera má að þið hugsið núna: „Týpískur karlmaður,“ en þegar konur ýta hárinu aftur, ómeðvitað að því er virðist, eru þær ekki bara að daðra, heldur eru þær líka að leita að sakleysislegu tækifæri til að láta lofta um holhöndina til að laða að áhugasama menn.

Yfirleitt er efnafræðilegum kynlífstjáskiptum stýrt í gegnum ilmefni: kynlífslyktarefnið andrósterón er í miklu magni í karlmönnum. Sér í lagi í sæðinu, í hárum í holhendi og í húðinni í holhendinni. Andrósterónið, sem er að mestu lyktarlaust, gefur eftir í skrefum og lyktar fyrst eins og þvag og því næst sem moskus- eða sandelviður. Það kemur konum sannarlega í jákvæða stemmningu þegar aðstæður eru réttar. Estradíol kemur karlmönnum í gírinn og hefur líka áhrif á ósjálfráða taugakerfið. Tár konu virka hins vegar þveröfugt. Í þeim er ferómón. Ef menn eru látnir þefa af tárum kvenna minnkar áhugi þeirra á kynlífi samstundis.

Ilmefni kvenna sem búa saman, færa tíðahringi þeirra á sama stað. Sem er óhagstætt fyrir eigendur kvennabúra... Og þegar karlar eða konur velja sér laust sæti setjast þau helst á þann stól þar sem áður sat einhver af gagnstæðu kyni. Það sama gerist ef ferómónspreyi var spreyjað á stólinn – ómeðvitað fylgdu sjálfboðaliðarnir eftir þeim keim sem eftir var af lokkandi lyktinni og völdu viðeigandi sæti.

Þegar við veljum okkur maka, spáum við í það hvort tryggt sé að við eignumst heilbrigða afkomendur, hvort erfðafræðilegt ónæmiskerfi hins mögulega maka hæfi okkar eigin. Láti maður konur lykta af nærbolum karlmanna velja þær þann bol og þar með þann mann sem er með ónæmiskerfi sem er mjög ólíkt þeirra eigin. Megineinkenni ónæmiskerfa eru svipuð innan hverrar fjölskyldu, það er hægt að þekkja þá meðlimi sem tilheyra hópnum. Þar með er hugsanlega komið í veg fyrir sifjaspell. Makaval sem stýrist af eðlisávísun varnar því að of lík eða of ólík ónæmiskerfiseinkenni veljist saman.

Að sjálfsögðu skiptir útlitið og innrætið máli við val á maka, en lífefnafræðin milli tveggja manneskja skiptir enn meira máli. Það þýðir einnig að það hefur sínar afleiðingar að breyta eða reyna að dylja þann ilm sem einkennir mann sem einstakling. Eins og til dæmis með notkun getnaðarvarnarpillunnar. Venjulegt lyktarskyn konunnar breytist fyrir tilstilli gervihormóna, en það gerir líka ilmurinn hennar.

Ef par kynnist á meðan konan er á pillunni getur verið að þau finni framandi lykt hvort af öðru þegar hún hættir á pillunni. Þegar fólk velur sér ilmvatn á það oft til að velja eitthvað sem gerir ilmsendingarnar sterkari. En einnig er hætta á, og sér í lagi með notkun á alls kyns vökva, sápu, sjampói, spreyi, svitalyktareyði, líkamskremi og ilmefnum, að við drekkjum okkar sanna ilm með öllum þeim mikilvægu upplýsingum sem hann ber. Nefið villist fljótt af leið. Þá situr maður í þeirri súpu að lenda með röngum aðila í rúminu eða það sem verra er, í hjónasæng...

mbl.is/ThinkstockPhotos

Nefið, með sínum 350 mismunandi móttökurum, er ekki það eina sem finnur lykt. Þarmarnir, nýrun, blöðruhálskirtillinn og húðin eru með lyktarskynjara. Húðin getur numið ilm með lyktarskynjurunum sínum í þyrnalagsfrumunum og þekkt lyktina af sandelviði. Við skulum minnast þess að karlmannssviti á niðurbrotsstigi lyktar eins og sandelviður. Mmmmm. Vísindamenn hafa komist að því að sár á húð gróa fyrr ef þessi móttakari er örvaður. Nú getur maður fabúlerað aðeins og spurt sig hvort sviti karlmanna sé heilnæmur? Hvort að í sandelviðarlyktinni séu ekki eingöngu lostavekjandi efni heldur einnig græðandi krem framtíðarinnar? Þetta er spurning sem vísindin eiga eftir að svara.

Sæðisfrumur hafa líka lyktarskynjara sem verða alveg galnir við það að finna ilm af gervidalaliljum á rannsóknarstofu. Í móðurlífi konunnar verður sæðið þó enn sem fyrr að láta sér nægja kvenhormónið prógesterón úr eggfrumunni sem aðdráttarafl.

Hráki, hor og börkur

Lykt umlykur okkur öll og gerir okkur viljalaus í ákveðnum aðstæðum. Við öndum henni að okkur með ákefð eða snúum frá. Það sama gerum við þegar við verðum vitni að því að einhver helgar sig því að pota í nefið á sér og borar djúpt og út úr stóru nefinu kemur ýmislegt áhugavert. Það gæti bent til þess að við höfum ekkert sérstaklega spennandi samband við það sem við fáum upp með okkar eigin borunum. En það er öðru nær. Við horfum heilluð á lit og þéttleika þess sem lent er í vasaklútnum eða sem við höfum dregið fram í dagsljósið með fingrunum. Til hvers ætti náttúran að gefa okkur fyrirtaks lyklasett með mismunandi þvermál, ef ekki til að framkvæma víðtæka hreinsun í nefinu á okkur?

Eða horfið þið ekki með rannsakandi augum í vasaklútinn og athugið hverju þið hafið skilað af ykkur? Það léttir á manni þegar maður hefur losað sig við hor og hráka. Og karlmenn! Hversu gott er það ekki, þegar maður er úti að skokka eða spila fótbolta, að loka fyrir aðra nösina og skjóta vel þykkum slímklumpi út um hina?

Svo virðist sem bíllinn sé uppáhaldsstaður margra til að bora í nefið á sér. Ökumaður bílsins situr við stýrið og borar ákaft í nefið, rétt eins og bíllinn hefði enga glugga. Og fyrir suma er glærhvítur horinn blátt áfram notalegt salt ljúfmeti milli mála.

Okkur finnst hor annarra ógeðfelldur og ástæðan fyrir því er sú að heili okkar lærði það fyrir mörgum milljónum ára að sumir hlutir gera mann veikan og geta verið ógn við tilveru okkar. Það er tilfellið að hættulega gulgrænn sýktur hor var sannarlega ógn fyrir tíma sýklalyfjanna. Græni liturinn er merki um bakteríur, guli liturinn er gröftur.

Hor og hráki samanstanda af mörgum hlutum: vatns- og slímkenndu seyti úr nefkirtlunum og slími frá svokölluðum bikarfrumum. Þær kallast svo vegna þess að þær líkjast jógúrtdós. Frumurnar eru staðsettar í slímhúðinni og sleppa innihaldi sínu til að bleyta slímhúðina í nefinu. Efnin í slímhúðinni, auk votra viðbótarefna úr kirtlunum, sjá til þess að eftir verður gúmmíkennt eða þurrt efni sem skýrir mismunandi fasa hors. Segja má að hor sé þurrkað nefseyti, blandað ryki, blóði, greftri eða sýklum.

Ennis- og kinnholurnar skaffa líka stundum hor. Þeirra fylgsni sem tengjast nefinu eru dimm skúmaskot, klædd slímhúð, í beinagrind andlitsins. Maður gæti haldið að eini tilgangur þeirra væri sá að láta okkur fá þrálátar sýkingar. En þau hafa stærra hlutverk en það, því gegnum þau loftar nefnilega um beinagrindina í andlitinu eins og gljúpar pakkningar þannig að hún verði ekki of stór og þung. Þessar holur skapa líka einhvers konar veðurskilyrði fyrir loftið sem við öndum að okkur þannig að það komist heitt og rakt inn í loftvegina og lungun.

Stærstu hellarnir í höfuðkúpunni á okkur eru ennis- og kinnholurnar. Það loftar ekki vel um þá þegar hellismunninn lokast sökum kvefs eða einhvers annars og þá verður fljótt þröngt og loftlaust þar inni. Þetta eru kjöraðstæður fyrir bakteríur, þær breyta hellinum í leiðindastað – og þá finnum við líka til.

Sýklar, skítur og ryk er það sem við öndum að okkur með nefinu og það festist í slími horsins. Nefhárin halda stórum rykögnum og skordýrum fjarri, þau eru dyraverðir öndunarvegsins. Því miður ná þau ekki að hreinsa fínt ryk nógu vel. Ef frá er talið sýnilegt ryk frá byggingarsvæðum, þröngvar fína rykið sér inn í minnstu lungnablöðrurnar.

Pínulitlu hárin, sem eru í slímhúð nefsins, þjóna líka stóru hlutverki: þau flytja hor eins og á færibandi í áttina að hálsinum. Úfurinn er þar í hlutverki rennibrautar. Horinn fer niður í maga án þess að við verðum vör við það og þar tæra magasýrurnar hann upp og eyða honum. Þegar loftið inni er þurrt, einkum á veturna, er erfiðara að flæma sýkla í burtu með slími, því að slímhúð nefsins er þá einnig þurr og þar með hafa sýkingar greiðari aðgang að okkur.

Húðin framleiðir meira af flösu ef hún þarf að losna við truflandi sýkla og efni sem valda áreiti, og á sama hátt reynir nefið að losa okkur undan sýkingum með því að þróa nefrennsli. Það að bora í nefið á sér þegar maður er með kvef getur verið örlagaríkt. Venjulega þvær maður sér ekki um hendurnar eftir að hafa borað. Þannig að næst þegar maður tekur í höndina á einhverjum, tekur í handfang eða grípur í stöng í strætó, þá getur maður smitað einhvern af sjúkdómsvaldandi bakteríum eða vírusum. Þegar eitthvað þessu líkt hittir á veikt ónæmiskerfi, getur eigandi þess auðveldlega smitast af kvefi eða flensu. Og því gildir einnig að maður má ekki gleyma að þvo sér um hendurnar fyrir matinn!

Þessi vinur okkar, borarinn, skilur einnig eftir sig bakteríur úr eigin nefi á húðinni. Ef hann er óheppinn verður til hunangsgul skorpa á nefinu, vörinni eða á hökunni sem er alls ekki hunangssæt heldur full af smitandi streptókokkum eða stafýlókokkum. Þessi húðsjúkdómur, sem oft finnur sér leið út um nefið og hentugan dreifingaraðila í fingrunum, heitir Impetigo contagiosa (sem þýða má sem „smitandi árás“), hrúðurgeit eða kossageit.

Húðsjúkdómalæknar leggja mikið upp úr því að slímhúðin sé heilbrigð þar sem húðin spilar gjarnan með þegar um sýkingu í slímhúðinni er að ræða – eins skemmtilegt og það nú er – og hefur iðulega í för með sér bólgur, exem, flösu eða kláða. Ónæmiskerfið, sem vill í sjálfu sér berjast við sýkilinn í slímhúðinni, snýst hins vegar oft gegn húðinni. Þetta kallast „hliðarsýking“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál